Höttur vann sannfærandi sigur á Breiðabliki í Smáranum í dag, 69-82, eftir að staðan hafði verið 37-43 í hálfleik, gestunum í vil. Þetta var áttundi sigur Hattarmanna í röð og með sigrinum festa þeir sig enn frekar í sessi í efsta sæti 1. deildarinnar. Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að þeir leiki meðal þeirra bestu á næsta keppnistímabili. Blikar sitja hinsvegar sem fastast í 4. sætinu og eiga góðan möguleika á að komast í úrslitakeppnina þar sem allt getur gerst.

 

Af hverju vann Höttur?

Höttur vann vegna þess einfaldlega að þeir voru betri og sterkari á öllum sviðum körfuboltans í þessum leik. Í liði þeirra mynda Bandaríkjamaðurin Aaron Moss og Mirko Stefán Virijevic frábært jafnvægi í liðinu, innan teigs sem utan, og leikmenn á borð við Hrein, Sigmar og Ragnar eru mjög góðir og ekki má líta af þeim. Fimmmenningarnir mynda gríðarlega sterkt byrjunarlið sem önnur lið viðast eiga í miklum vandræðum með.

 

Þeir sem sigldu á sælum sel

Fyrrnefndir Mirko og Aaron voru bestu menn vallarins í dag ásamt Sigmari, sem er skemmtilegur og lunkinn leikmaður. Aaron setti 22 stig, tók 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og hefur verið magnaður með Hetti í vetur. Mirko gerði 20 stig og reif niður 15 fráköst. Sigmar gerði sömuleiðis 20 stig og tók 6 fráköst. Hjá Blikum var Ty stigahæstur að venju með 30 stig og fjóra stolna bolta sem er nú ekki mikið á þeim bænum. Þá skein stjarna Kjartans Atla, sem gekk til liðs við Kópavogspilta á dögunum, skært á nýlökkuðu gólfinu í Smáranum en hann gerði 19 stig og hirti 7 fráköst.

 

Þeir sem skripluðu á skötu

Fyrir utan Ty og Kjartan Atla voru aðrir leikmenn Blika slakir og geta miklu betur, sérstaklega sóknarlega. Aðeins þrír aðrir komust á stigaskorstöfluna; Ragnar gerði 7 stig, Sveinbjörn  með 5 og Egill setti 4 stig. Reyndar náði Leifur Steinn tveimur auðveldum körfum undir blálokin þegar úrsitin voru ráðin.  Það kann ekki góðri lukku að stýra að aðeins tveir leikmenn nái að skora 10 stig eða meira.

 

Hvað gerist næst?

Höttur sækir Fjölni heim í Grafarvoginn í næsta leik og má þar búast við stórslag hvar þetta eru liðin í fyrsta og öðru sæti. Vinni þeir hann eru þeir komir í afar sterka stöðu. Blikar mæta Vestra á föstudaginn í Smáranum en Vestfirðingar hafa verið að sækja í sig veðrið og unnið síðustu fjóra leiki sína.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Gylfi Gröndal

Myndir / Bjarni Antonsson