Grindvíkingar, sem taka á móti meisturum KR í 14. umferð Dominos deildar karla í kvöld, hafa ákveðið að láta allan ágóða miðasölu af leiknum renna til fjölskyldu Ölmu Þallar Ólafsdóttur, sem lést í bílslysi fyrr í mánuðinum. Samkvæmt körfuknattleiksdeildinni skiptir það þá miklu að reyna að ná í tvö stig í kvöld, en það skipti meira máli að sem flestir mæti í kvöld og hjálpi til við að láta gott af sér leiða.
Fréttatilkynning KKDG:
Jæja Grindvíkingar !! Það er stórleikur í Mustad-Höllinni í kvöld þegar að KR-ingar koma í heimsókn. Við ætlum okkur tvö stig og ekkert annað.
En þó að leikurinn skipti máli í kvöld þá skiptir meira máli að Körfuknattleiksdeildin hefur ákveðið að öll innkoma á leiknum í kvöld renni til Óla Más, Lóu og þeirra fjölskyldu vegna fráfals Ölmu Þallar. Hugur okkar er hjá þeim. Mætum í kvöld, styðjum og látum gott af okkur leiða.