Keflavík sigraði Grindavík með 76 stigum gegn 50 í 16. umferð Dominos deildar kvenna í dag á heimavelli sínum í TM Höllinni. Eftir leikinn er Keflavík því enn í efsta sæti deildarinnar ásamt Skallagrím á meðan að Grindavík, sömuleiðis enn, í neðsta sæti deildarinnar.

 

Erfiður tími

Grindavík gengið í gegnum öldudal síðustu vikur. Þar sem að erlendur leikmaður þeirra ákvað að hætta, þjálfarinn þeirra veiktist og leikmenn hafa verið að glíma við meiðsl. Þá kannski sérstaklega Ingibjörg Jakobsdóttir sem að var ásamt nýjum erlendum leikmanni liðsins í borgaralegum klæðum á bekk liðsins í þessum leik. Það munar um minna.

 

 

Kjarninn

Í upphafi leiks virtust gestirnir úr Grindavík til alls líklegir. Eftir fyrsta leikhluta leiddi Keflavík þó 14-12. Í byrjun annars leikhlutans, þegar 3 mínútur voru liðnar af honum, nær Grindavík þó loks að jafna leikinn í stöðunni 21-21. Þá er eins og Keflavíkurstúlkur hafi fengið sig fullsaddar af þessum leik. Svara með snörpu 14-2 áhlaupi og líta í raun ekki til baka það sem eftir lifði leiks. Leiddu með 15 stigum í hálfleik og svo 28 eftir 3 leikhluta. Svo fór að lokum að Keflavík sigraði að lokum með 26 stigum, 76-50.

 

Varnarlið?

Mikið hefur verið rætt um hversu sterkt þetta Keflavíkurlið sé varnarlega. Vissulega eru þær það, pressa oftar en ekki allan völlinn og láta andstæðinga sína tapa boltanum mun oftar heldur en að þeir gera venjulega. Sóknarlega er Keflavík þó alveg á pari við það besta sem maður sér í deildinni. Þá kannski sérstaklega Ariana, Emelía, Birna Valgerður og Thelma Dís. Sex leikmanna þeirra skoruðu 8 stig eða fleiri í leik kvöldsins. 

 

Grindavík í Keflavík

Bestu leikmenn Grindavíkur í dag voru María Ben Erlingsdóttir og Lovísa Falsdóttir. María skoraði 15 stig og tók 8 fráköst á meðan að Lovísa skoraði 10 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Eins og flestir vita spiluðu þær stöllur á sínum tíma upp alla yngri flokka Keflavíkur. Því mætti leiða líkur að því að sú reynsla hafi hjálpað þeim eitthvað á þessum gamla heimavelli þeirra, sem var liðinu annars virkilega erfiður útivöllur í dag.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Ekki það að Keflavík hafi ekki rúllað þessum leik upp í flestum þáttum tölfræðinnar. Ef eitthvað ætti að nefna, mætti benda á hvað þriggja stiga nýting Grindavíkur var alveg hræðileg í leiknum. Hittu aðeins úr 1 þriggja stiga skoti sínu úr 17 tilraunum (6%) Keflavík aftur á móti skoraði 8 þriggja stiga körfur úr 25 tilraunum (32%)

 

Maður leiksins

Ariana Moorer var frábær fyrir Keflavík í dag. Skoraði 18 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á aðeins 21 mínútu spilaðri í dag.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl: