Fyrsti toppslagur ársins 2017 bauð uppá tilþrif, dramatík, læti og í raun allt. KR heimsótti Sauðárkrók þar sem þeir tóku á móti toppliði Tindastóls. 

 

Hér að neðan má lesa um helstu þætti leiksins:

 

Þáttaskil

Tindastóll átti stórkostlegan fyrri hálfleik í kvöld og komst mest í stöðuna 47-19. Pétur Rúnar Birgisson hitti úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum í hálfleiknum og endaði með 24 stig. Einhverjir hafa líklega hætt að horfa í hálfleik því heimamenn virtust vera með sigur í höndunum. Þeir sem hættu að horfa eru líklega að berja sjálfa sig í hausinn núna því Ísland- og bikarmeistararnir áttu magnaða endurkomu. 

 

KR saxaði hægt og rólega á forystu Tindastóls en þegar Antonio Hester lék sér undir körfunni fyrir heimamenn virtist endurkoman vera ólíkleg. Jón Arnór Stefánsson var algjörlega ósammála því og setti fjórar þriggja stiga körfur í röð á lokamínútunum til að koma KR yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar ein mínúta var eftir. Tindastóll komst ekki aftur inní leikinn og KR staðfesti þar með klisjuna um að mikilvægast er að toppa á réttum tíma. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Flestir tölfræðiþættir liðanna í kvöld eru heldur jafnir. Tindastóll tók nokkur fleiri fráköst í leiknum og munar þá helst um 20 sóknarfráköst gegn 12 hjá KR. Skotnýting KR er hinsvegar mun betri, fyrir utan þriggja stiga línuna er KR með 38% nýtingu gegn 29% heimamanna. Þar er helsti munurinn á liðunum tölfræðilega. 

 

Geitin

Jón Arnór Stefánsson lék sinn fyrsta leik á tímabilinu fyrir KR eftir endurkomuna síðasta sumar. Hann fór rólega af stað og lítið fór fyrir honum framan af. Þrátt fyrir það var hann búinn að skila 19 stigum áður en ótrúlegur endasprettur fór af stað. Hann setti fjórar þriggja stiga körfur í röð til að vinna leikinn uppá eigin spítur. Hann endaði með 33 stig 6 fráköst og var með 6/7 fyrir utan þriggja stiga línuna. 

 

Kjarninn

KR átti alls ekki frábæran leik í dag en það búa svo ótrúleg gæði þessu liði að það skildi engin voga sér að afskrifa þá í nokkrum aðstæðum. Það hefði ekkert verið ósanngjarnt ef Tindastóll hefði tekið sigurinn en það þarf að halda einbeitingu í 40 mínútur og KR voru bara betri í því í kvöld. 

 

Þrátt fyrir að Jón Arnór og KR hafi átt magnaða endurkomu þá geta stólarnir kennt sjálfum sér um að ákveðnu leyti. Þegar munurinn var að nálgast þrjátíu stig fór spennan á yfirsnúning í liðinu. Leikmenn urðu brjálaðir yfir öllum villu dómum á sig sem voru langflestir hárréttir og gáfu KR því tækifæri á að halda sér í seilingarfjarlægð í stað þess að kaffæra þeim algjörlega. Lykilleikmenn fengu á sig klaufalegar villur og hættu að taka af skarið sóknarlega. Það gengur ekki upp þegar verið er að spila við jafn gott lið og KR. 

 

KR er með þar með komið í annað sæti deildarinnar og eru tveim stigum frá toppnum. Tindastóll aftur á móti fer niður í þriðja sæti deildarinnar en ljóst er að toppbarátta þessara liða auk Stjörnunnar verður algjörlega stórkostleg í vetur. 

 

Tölfræði leiksins

 

Viðtöl við leikmenn eftir leikinn:

 

 

Myndir og viðtöl / Hjalti Árnason