Það bjuggust ekki margir við jöfnum leik þegar sigurlaust lið Ármanns mætti heimamönnum í Vestra á Jakanum á Ísafirði í kvöld en gestirnir höfðu einungis sex leikmenn í búning. En þökk sé góðri hittni þeirra framan af og áhugalausri vörn heimamanna þá fengu fjölmargir áhorfendur leiksins ágætis leik til að horfa á.
Leikurinn
Það var ekki að sjá í byrjun leiks hvort liðið var ekki búið að vinna leik í vetur því Ármenningar áttu í fullu tré við Vestramenn framan af og leiddu, 28-29, þegar stutt var liðið af öðrum leikhluta. Þá tók við frábær kafli Ísfirðinga þar sem Nebojsa Knezevic fór mikinn og skoruðu heimamenn 17 ósvöruð stig í röð. Mest náðu þeir 19 stiga forustu áður en Ármenningar fóru hægt og bítandi að ná muninum niður.
Minnstur varð munurinn 10 stig þegar 6 mínútur lifðu leiks en þá þraut þrek Ármenninga og Vestramenn sigldu öruggum 17 stiga sigri í land.
Lykilmenn
Nebojsa var bestur heimamanna með 22 stig og 11 fráköst, Yima Chia-Kur bætti við 18 og Adam Smári Ólafsson skoraði 14 stig.
Magnús Ingi Hjálmarsson (25 stig) og Arnþór Fjalarsson (24 stig) fóru fyrir liði sunnanmanna en auk þeirra átti Ísfirðingurinn Guðni Páll Guðnason prýðisleik á sínum gamla heimavelli með 16 stig, 5 stolna bolta og 4 stoðsendingar.
Mynd: Ágúst Atlason / gusti.is