Njarðvíkurljónin börðu fram sigur í rafmögnuðum leik gegn Tindastól í Ljónagryfjunni í kvöld. Skagfirsk rasskelling átti sér stað í fyrri hálfleik en heimamenn réttu úr kútnum og unnu frábæran sigur eftir æsispennandi lokasprett, 92-86. Í annað sinn á stuttum tíma eru Tindastólsmenn að glutra niður leik eftir að hafa náð góðri forystu en slíkt hið sama gerðist gegn KR á dögunum. Njarðvíkingar að sama skapi búnir með látum að reka af sér slyðruorðið sem hékk við þá á fyrri hluta tímabilsins og komnir með þrjá deildarsigra í röð og síðustu tveir gegn Stjörnunni og nú gegn Tindastól, toppliðum deildarinnar!

Skagfirskir vindar blésu í Ljónagryfjunni í fyrri hálfleik í kvöld, Tindastóll opnaði leikinn 0-9 áður en Björn Kristjánsson kom Njarðvikingum á kortið með þriggja stiga körfu. Pálmi Geir Jónsson átti „bjútífúl“ innkomu hjá Tindastól, skellti í þrjá þrista í fyrsta leikhluta og sá þriðji var jafnframt flautuþristur og Pálmi þar með búinn að gera alls 11 stig á innan við 5 mínútum en þess má geta að allt tímabilið hefur Pálmi bara gert samstals 36 stig á tæpum 130 mínútum. Tindastóll leiddi 21-28 eftir fyrsta leikhluta og héldu áfram að svíða heimamenn í öðrum leikhluta þegar Chris Caird tók völdin.

Israel Martin lét sína menn teygja vel á Njarðvíkingum vitandi það að hjálparvörn grænna hefur verið af afar skornum skammti þessa vertíðina. Parið Atkinson og Jón Sverrisson voru prímusarnir í bestu sprettum Njarðvíkinga í fyrsta leikhluta en þeir sáust ekkert saman á parketinu í öðrum leikhluta og Tindastólsmenn áttu hann skuldlausann, unnu annan leikhluta 15-27 og leiddu því 36-55 í hálfleik. Chris Caird var frábær í öðrum leikhluta og var með 19 stig og Pálmi Geir 13 í liði gestanna en hjá Njarðvík var Logi Gunnarsson sá eini sem rauf tveggja talna múrinn með 12 stig að loknum fyrri hálfleik.

Með 19 stiga forystu í upphafi síðari hálfleiks bjuggust flestir við að sterkt lið á borð við Tindastól myndi halda þétt um stýrið í síðari hálfleik. Njarðvíkingar komu hinsvegar með læti og opnuðu þriðja leikhluta með 12-0 dembu! Israel Martin var svo ekki skemmt þegar Pálmi Geir fékk óíþróttamannslega villu fyrir varnartilburði liggjandi í gólfinu. Martin lét þar móðan mása yfir dómarastéttina en slapp með áminningu. Jóhann Árni Ólafsson og Vilhjálmur Theodór Jónsson færðu leik sinn upp á næsta þrep í síðari hálfleik og Njarðvíkingar voru mun meira ógnandi og þá fór varnarleikurinn að smella því heimamenn héldu Tindastól í 20 stigum í þriðja leikhluta og gerðu enn betur í fjórða þegar þeir héldu Tindastól í aðeins 11 stigum! Antonio Hester fékk snemma sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og var mikið frá þessar 10 mínútur leiksins.

Tilþrif tímabilsins!
Þegar þriðja leikhluta var að ljúka átti Njarðvík, héldu margir, lokaskot leikhlutans en það geigaði og Björgvin Hafþór Ríkharðsson náði frákastinu og grýtti boltanum yfir völlinn frá sinni eigin þriggja stiga línu og ótrúlegt en satt þá rataði boltinn rétta leið, mögnuð karfa og staðan 65-77 fyrir Tindastól fyrir fjórða leikhluta.

Caird bauð upp á troðslu í upphafi fjórða fyrir gestina en hann var hrikalega flottur í kvöld. Hann lét Njarðvíkinga oft svíða uppi á toppi í „vagg og veltu“ aðstæðum en þeir félagar Vilhjálmur og Jóhann Árni gerðu þetta að naglbít þegar þeir settu tvo þrista fyrir heimamenn og komu muninum niður í 78-79 og þá var nánast runnið æði á heimamenn. Tindastólsmegin voru menn farnir að verja forskotið, nokkrir óvilhallir dómar sem virtist alveg fara með geðslag gestanna og Njarðvíkingar gengu einfaldlega á lagið. Hester jafnaði fyrir Tindastól 83-83 með kraftatroðslu en það var svo Logi Gunnarsson með þrist að „tyrkneskum“ hætti sem kom Njarðvíkingum í 90-86 þegar 44 sekúndur lifðu leiks og þakið af Ljónagryfjunni!

Með fjögurra stiga forystu og 30 sekúndur eftir af leiknum supu Njarðvíkingar hveljur því Caird var í pick n roll aðstöðu og þá gerðist nokkuð sem Njarðvíkingum hafði ekki tekist í leiknum til þessa. Myron Dempsey stal boltanum af Caird og þannig ísaðist leikurinn endanlega og lokatölur reyndust 92-86 í mögnuðum slag.

Tvö stig í súginn hjá Stólunum en Njarðvíkingar sem eru enn með botninn á harðahlaupum á eftir sér landa tveimur afar mikilvægum stigum.

Logi Gunnarsson var stigahæstur hjá Njarðvík í kvöld og með einn allra stærsta þrist kvöldsins, Jóhann Árni Ólafsson átti einn af sínum betri leikjum á tímabilinu með 13 stig og 16 fráköst og Vilhjálmur Theodór Jónsson heillaði Njarðvíkinga með 14 stig og 3 fráköst og sterka frammistöðu á lykilaugnablikum leiksins.

Hjá Tindastól var Chris Caird baneitraður með 39 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar og Pálmi Geir Jónsson kom með 13 stig af bekknum og átti sinn besta leik á tímabilinu. Antonio Hester náði ekki nægilega góðum takti í kvöld en var drjúgur á lokasprettinum en hann lék aðeins 25 mínútur í kvöld sem er tæpum átta mínútum frá meðaltalinu hans.

Tölfræði leiksins
Myndasafn

Umfjöllun – nonni@karfan.is
Myndir – skuli@karfan.is

Mynd/ Jóhann Árni Ólafsson lék eins og herforingi í Njarðvíkurliðinu í kvöld.