Danero Thomas hefur samið við lið ÍR í Dominos deild karla en þangað fer hann frá Þór Akureyri þar sem hann hefur leikið síðustu tvö tímabil. Þetta staðfesti Kristján Pétur Andrésson formaður körfuknattleiksdeildar ÍR í samtali við Karfan.is fyrr í kvöld.

 

Danero er með íslenskt ríkisfang en hann hefur leikið með KR, Val, Hamri, Fjölni og Þór Ak. Hann er með 16,6 stig og 7,1 frákast að meðaltali á 30 mínútum í leik.

 

Kristján Pétur sagði að liðið teldi að Danero væri góð styrking í hópinn fyrir baráttuna sem nú er framundan. „ Fleiri lið voru á eftir honum en á lokum valdi hann ÍR.“ 

 

ÍR er í áttunda sæti deildarinnar eftir 14 leiki og er stefnan sett á úrslitakeppnina. Kristinn Marínósson er enn meiddur um mun ekki leika með liðinu næstu vikur og því mun Danero styrkja liðið.