Ægir Þór Steinarsson tryggði liði sínu San Pablo Burgos sigur á Actel Lleida með sigurkörfunni undir lok leiksins.
Burgos vann leikinn 80-78 þar sem Ægir valdi bestu tímasetninguna fyrir sína fyrstu körfu en það var sigurkarfan. Hann skilaði 2 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum á 18 mínútum.
Ægir er vanur því að tryggja sínu liði sigur en þetta er í annað skiptið sem hann setur úrslitakörfuna í leik með Burgos. Fyrst var það gegn Peixefresco í nóvember og því ljóst að spánverjarnir treysta vel á íslenska leikstjórnandann á stórum augnablikum.
Burgos hefur unnið átta leiki í röð og eru komnir á gott ról eftir ósannfærandi byrjun.
Einnig lék Ragnar Nathanaelsson í tapleik með Caceres í gær. Hann var með 1 stig og 3 fráköst á 13 mínútum en Caceres er í 11. sæti deildarinnar eftir 17 leiki.