Í mörg horn var að líta í NBA deildinni í nótt. Russell Westbrook landaði sinni sjöttu þrennu í röð í sigri Oklahoma, Golden State Warriors gerðu 142 stig í venjulegum leiktíma og tvíframlengja varð viðureign Pelicans og Grizzlies.

Oklahoma náði í 99-102 útisigur gegn Atlanta þar sem Russell Westbrook gerði 33 stig, tók 13 fráköst og gaf 12 stoðsendingar í liði Oklahoma. Hans sjötta þrenna í röð og lengsta þrennusamfella í NBA síðan árið 1989 en þá náði Michael Jordan sjö þrennum í röð. Flestar þrennur í röð á Wilt Chamberlain eða 9 í röð árið 1968. Flestar þrennur á ferlinum átti Oscar Robertson eða 181 talsins, næstur var Magic Johnson með 138 og í þriðja sæti er Jason Kidd með 107. Russell Westbrook er með 47 talsins eftir 9 ár í deildinni svo hann á enn nokkuð í land til að ná toppsætunum.


(Viðeigandi)

Klay Thompson fór hamförum nótt í risasigri Golden State gegn Indiana. Lokatölur 142-106 fyrir Golden State þar sem Klay Thompson setti persónulegt met með 60 stig á 29 mínútum! Klay skellti í 8-14 í þristum, tók 2 fráköst og gaf 1 stoðsendingu sem kemur nánast á óvart með manninn í þessum ham. Durant bætti við 20 stigum og Curry 13, aðrir felldu sig við minna þar sem Klay tók þetta bara að sér. Paul George var atkvæðamestur í liði Indiana með tvennu, 21 stig og 10 fráköst.

Tvíframlengja varð viðureign Pelicans og Grizzlies þar sem Grábirnirnir kreistu fram 108-110 útisigur. Marc Gasol jafnaði leikinn 94-94 með þrist þegar sjö sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og því varð að framlengja. Aftur settu Memphis þrist til að knýja fram aðra framlengingu þegar þeir jöfnuðu 100-100 og svo fór í annarri framlengingunni að Marc Gasol gerði síðustu stig leiksins þegar tæp hálf mínúta var eftir og breytti stöðunni í 108-110. Anthony Davis gerði 28 stig og tók 17 fráköst fyrir Pelicans en Troy Daniels var með 29 stig í liði Memphis og Gasol bætti við 28 stigum og 11 fráköstum.

Öll úrslit næturinnar:

76ers 98-106 Nuggets
Raptors 112-116 Cavaliers
Nets 113-118 Wizards
Hawks 99-102 Thunder
Bulls 110-112 Trailblazers
Bucks 96-97 Spurs
Pelicans 108-110 Grizzlies
Rockets 107-106 Celtics
Mavericks 101-109 Hornets
Lakers 101-107 Jazz
Warriors 142-106 Pacers

Myndbönd næturinnar: