Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson hefur vakið gríðarlega athygli fyrir frammistöðu sína í annari deild háskólaboltans þar sem hann leikur með Barry háskólanum. Barry er þegar þetta er skrifað í 12 sæti deildarinnar en í henni eru um 300 lið.
Karfan.is spjallaði við þennan efnilega leikmann milli hátíða þar sem hann spókaði sig á ströndinni í Miami.
Elvar Már kom til Barry háskólans fyrir einu og hálfu ári síðan og hefur spilað vel eftir að hann kom þangað.
„Ég kann mjög vel við mig hér, ég er í flottum skóla þar sem körfuboltaprógrammið er gott og á frábærum stað.“ sagði Elvar en hann býr í Miami sem hann segir vera frábæran stað.
„Miami er að mínu mati einn skemmtilegasti staður sem ég hef komið á, mikið líf hér og veðrið skemmir sjaldan fyrir. Þetta er fallegur staður þar sem spænska er aðal tungumálið. Það væri auðveldlega hægt að gera þetta að glamúr lífi hér í Miami ef maður væri ekki námsmaður og í körfubolta.“
Mynd / Heimasíða Barry.
Elvar fór ásamt Martin til LIU háskólans sem leikur í NCAA fyrst þegar hann kom til Bandaríkjanna. Hann ákvað hinsvegar eftir ár að skipta um skóla og flytja á allt annan stað þar í landi.
„Ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun að breyta til vegna þess að ég var ekki að finna mig í LIU, ég ákvað að láta reyna á annan skóla þar sem ég vildi ekki gefast strax upp. Í Barry líður mér mjög vel, ég hef bætt leik minn hér. Mér líkar rosalega vel við þjálfara og liðsfélaga og nýt þess að spila körfubolta hér.“ sagði Elvar og bætti við um árangur liðsins síðan hann kom þangað.
„Við vorum með sterkt lið í fyrra og var allt nýtt fyrir mér en ég hef fengið stærra hlutverk sóknarlega í ár. Við misstum 4 byrjunarliðsmenn frá því í fyrra en fengum nokkra mjög góða inn, svo markmiðin eru ennþá í sömu átt og það er að komast lengra en í fyrra, sem var 8 liða úrslit í landinu í D2.“
„Það var stór áfangi að komast í 8 liða úrslit í Division 2 í college, þar sem um 300 lið eru í Division 2 og eru margir mjög góðir leikmenn.“
Mynd / Heimasíða Barry
Á heimasíðu Barry segir að Elvar sé með stórkostlegar sendingar og listamaður í boltameðferð en hvernig metur hann sitt hlutverk hjá Barry? „Mitt hlutverk er að stjórna liðinu inn á vellinum, þar sem ég spila stöðu leikstjórnanda og er með eldri leikmönnum í liðinu. En ég reyni yfirleitt að gera mitt besta til að sigra leiki og það er ekki verra þegar framlag manns hjálpar til að vinna.“
Elvar á nú eitt og hálft ár eftir af háskólanum þar sem hann stefnir að útskrift með stjórnun sem aðalgrein. Kitlar það hann ekkert að fara í atvinnumennskuna fyrir útskrift?
„Markmið mitt er að klára háskólann vegna þess að ég tel að menntunin er mikilvæg að hafa með vegna þess að körfubolta ferillinn er ekki endalaus. Draumurinn hefur alltaf verið að komast í atvinnumennsku og er ég gríðarlega ánægður að sjá hversu vel Martin er að standa sig. Hann hefur lagt mikið á sig til þess að komast í atvinnumennsku og með þessu áframhaldi sé ég hann taka nokkur skref uppá við á næstu árum. Það kitlar auðvitað að komast til Evrópu, ég get nú ekki logið því að mér finnst skemmtilegara að spila körfubolta en að sitja yfir bókunum. Ég ætla klára það sem ég tók mér fyrir hendur hér og set svo stefnuna á Evrópu eftir það.“
Íslenska landsliðið tryggði sér þátttökurétt á eurobasket á næsta ári með góðri frammistöðu í undankeppninni síðastliðið sumar. Elvar var í hópnum og átti til að mynda eftirminnilega innkomu í tapleiknum gegn Sviss. Hann var ekki í nokkrum vafa um að undankeppnin stæði uppúr hjá sér á árinu 2016.
„Að fá að taka þátt í því verkefni var gríðarlega skemmtilegt og reynsluríkt þar sem maður fær að spila og æfa með frábærum körfubolta mönnum.“ sagði Elvar og bætti við um sína frammistöðu.
„Ég var ánægður með mína innkomu þar sem ég var ekki með á EM árinu áður og ég lagði mikið á mig til þess að komast í liðið og leggja mitt að mörkum. Ég fékk tækifæri að spila í undankeppninni og það var mjög skemmtilegt að fá að spila og hjálpa liðinu að komast aftur á EM 2017.“
Mynd / Bára Dröfn
Ekki er gengið að því vísu að leikmenn í háskólum í Bandaríkjunum fái leyfi til að leika á alþjóðlegum mótum af ýmsum ástæðum. Sem dæmi fékk Kristófer Acox ekki leyfi til að vera með á síðasta Eurobasket. Elvar ætlar ekki að lenda í slíku.
„Ég er búinn að fá grænt ljós á það frá skólanum að fá að taka þátt á Eurobasket með ég verð valinn í hópinn. Það var það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom út í September. Það er að sjálfsögðu stóra markmið næsta árs og það gefur manni auka orku og hvatningu til þess að æfa ennþá meira og leggja enn meira á sig til þess að geta fengið að upplifa það að taka þátt í Eurobasket.“ sagði Elvar og bætti við um mótið og andstæðinganna í riðlinum.
„Þetta er vettvangur sem alla körfuboltamenn í Evrópu dreymir um að spila á svo mér lýst mjög vel á mótið sjálft. Við lentum í erfiðum riðli og það verður gaman að sjá hvort við náum að vinna okkar fyrsta leik á Eurobasket þar sem við vorum svakalega nálægt því að vinna á Eurobasket 2015.“
Það er ekki mikið um jólafrí í körfuboltanum í Bandaríkjunum og því engin möguleiki fyrir Elvar að koma heim til íslands um jólin. Það voru því nokkuð óhefðbundin hátíðarbragur hjá honum þessi jólin.
„Ég held uppá jólin hér í Miami og fæ heimsókn frá fjölskyldumeðlimum og vinum svo það er alltaf nóg að gera og lítill tími til þess að fá heimþrá. Ég fékk hangikjöt og malt & appelsín svo ég bið ekki um meira en það. Svo auðvitað er það ekki að skemma fyrir að geta notið þetta viku frí sem ég fæ að sóla sig vel á ströndinni.“ sagði Elvar svo að lokum glettinn.
Elvar lék í gær í sigurleik gegn Rollins og ljóst að hangikjötið fór nokkuð vel í hann því hann var með 2 stig, 10 stoðsendingar, 5 fráköst og 4 stolna bolta á 24 mínútum. Hann er með 8,2 stoðsendingar að meðaltali í leik sem gerir hann þriðja stoðsendingahæsta í allri deildinni. Ljóst er að framtíðin er björt fyrir Elvar og verður einstaklega skemmtilegt að fylgjast með honum á næstu árum.
Mynd / Jón Björn – Nonni@karfan.is
Forsíðumynd / Bára Dröfn
Viðtal / Ólafur Þór Jónsson