Bjarni Magnússon var heldur upplitsdjarfur eftir að ljóst var að hans lið í Grindavík hefði fengið heimaleik gegn nágrönnum sínum í Keflavík í átta liða úrslitum Maltbikars kvenna.
Bjarni tók við þjálfun liðsins fyrir nokkru en gengi liðsins hefur verið dapurt í upphafi móts og því spurning hvort hægt sé að nýta bikarkeppnina til kveikja í liðinu.
„Við unnum Njarðvík í 16 liða úrslitum og fáum nú Keflavík á heimavelli sem verður skemmtilegt og verðugt verkefni. Ég hlakka allavega mikið til að takast á við þetta verkefni.“ sagði Bjarni í samtali við Karfan.is í gær.
Annað skiptið í röð fær Grindavík annað suðurnesja lið á heimavelli sínum, getur heimavöllurinn skipt máli í þessari rimmu?
„Það er mikilvægast í þessu að vinna. Auðvitað hjálpar það alltaf til að fá heimaleik.“ sagði Bjarni
Eins og fyrr sagði hefur Grindavík farið heldur illa af stað í deildinni en Bjarni vildi meina að sitt lið ætti nóg inni fyrir næstu mánuði.
„Við lékum gegn Keflavík um daginn þar sem þær voru sterkari allan tímann. Þær hafa komið mjög vel inní þetta mót. Við ætlum okkur að komast hægt upp töfluna þó staðan sé ekki falleg akkurat í dag. Það er nóg eftir af mótinu og vonandi getum við strítt þessum toppliðum þegar líður á.“
„Þetta eru þrjár mismunandi keppnir, deildarkeppni , úrslitakeppni og bikarkeppni. Við þurfum bara á því að halda að hugsa um einn leik i einu. Það hefur ekki gengið nægilega vel í haust en við sóttum góðan sigur í síðasta leik gegn Njarðvík. Einbeitum okkur núna að næsta leik sem er gegn Val og viljum byggja ofan á síðasta sigurleik.“ sagði Bjarni að lokum.