Mikið var um að vera vestan hafs í NBA deildinni á árinu. Golden State Warriors settu met, Cleveland Cavaliers urðu meistarar, Kobe Bryant og Tim Duncan hættu og margt fleira. Hér að neðan eru 10 stærstu fréttirnar úr NBA deildinni af árinu sem er að líða.

 

 

1. Kobe Bryant skorar 60 stig í lokaleik 

Kobe Bryant hafði gefið það út í byrjun tímabilsins að það ætti að verða hans síðasta. Í gang fór einhver rosalegasti kveðjuleiðangur sem að íþróttaheimurinn hefur séð þar sem að hann hvíldi vissa leiki og spilaði aðra, enda gat hann kannski ekki mikið meira miðað við öll þau meiðsl sem hann hafði verið að glíma við. Passað var þó upp á að hann næði að spila á sem flestum stöðum áður en að hann hætti, svo að áhorfendur á viðkomandi stað gætu nú fengið að öskar MVP í eitt skipti í viðbót (og verlsa sér varning) á hann áður en að hann hætti. Tímabilinu lokaði hann svo á mjög “Kobe Bryant” máta, þar sem að liðið lék á heimavelli gegn Utah Jazz og vann þar sem að hann skoraði hann 60 stig.

 

 

2. Blokkið 

Lebron James er líklegast sá fyrirferðarmesti í flestum annálum þessa árs. Kannski ekki skrýtið. Eftir að hafa farið frá heimabæjarfélagi sínu, Cleveland Cavaliers, fyrir nokkrum árum til þess að vinna titla í Miami var hann nú mættur aftur á heimaslóðir til þess að gera slíkt hið sama fyrir frændur sína og frænkur í Ohio. Vissulega væri hægt að færa rök fyrir því að bæði vörn Kevin Love á Stephen Curry og skot Kyrie Irving yfir sama sama leikmann hafi verið jafn mikilvægt fyrir sigur liðsins í oddaleiknum og hið stórkostlega eltann uppi blokk sem að Lebron James tók í lok leiksins. Risastór sigur fyrir Cleveland og vilja Lebron James sem að oft á tíðum virtist ómennskur í þessari úrslitakeppni.

 

 

3. Nýr CBA samningur

Ný samningur náðist á milli félags leikmanna og eigenda liðanna í NBA deildinni fyrr í þessum mánuði og því erum við ekki að horfa fram á að það verði verkfall í deildinni líkt og gerðist árin 1995, 1996, 1998 og síðast 2011. Samningurinn er gerður til 7 ára þar sem að aðilar að honum mega þó kerefjast nýrra samninga eftir 6 ár. Þónokkrar breytingar verða á deildinni með þessu þar sem að laun nýliða og stórstjarna munu hækka mest. Þá mun deildin einnig byrja fyrr, fleiri leikmenn fá samninga og margt fleira.

 

 

4. Kevin Durant til Golden State Warriors

Eftir 9 ára veru, fyrst hjá Seattle Supersonics, sem síðan varð Oklahoma City Thunder ákvað hinn samningslausi, fyrrum verðmætasti leikmaður deildarinnar, Kevin Durant að leggja land undir fót síðastliðið sumar og ganga til liðs við besta lið deildarinnar frá síðasta tímabili, Golden State Warriors. Ekki það að liðið sem slíkt hafi þurft á því að halda, en gott og blessað. Warriors með Durant fara fóru af stað á blússandi siglingu, eru með 29 sigra og aðeins 5 töp (85%) þegar stutt er í að deildin sé hálfnuð þetta tímabilið.

 

 

5. Joel Embiid

Philadelphia 76ers völdu Joel Embiid með valrétti númer 3 í nýliðavali deildarinnar árið 2014. Eftir að hafa verið meiddur síðan þá byrjaði hann sitt fyrst tímabil nú og hafa þessir fyrstu leikir hans sko ekki svikið. Vissulega er liðið sem að hann spilar með ömurlegt og í raun rökræðuhæft hvort þeir ættu á annað borð að fá að vera með í deild þeirra bestu. Breytir því ekki að það sem af er er Embiid með 19 stig, 7 fráköst og 2 varin skot á meðaltali á rúmum 24 mínútum í leik. Verður nánast örugglega valinn besti nýliðinn þetta árið og líiklega stór stjarna í deildinni á næstu árum.

 

 

6. Golden State Warriors vinna 73 leiki

Besta árangur liðs á tímabili fyrir síðasta tímabil átti lið Chicago Bulls frá árinu 1995-1996. Þá unnu þeir, lið sem innihélt Michael Jordan, Scottie Pippen, Dennis Rodman, Toni Kukoc, Ron Harper, Steve Kerr og fleiri, heila 72 leiki. Met sem að margir héldu að myndi standa næstu 100 árin. Warriors lið síðasta árs (þjálfað af Kerr) gerði sér hinsvegar lítið fyrir og sló það met með því að sigra 73 leiki. Vissulega töpuðu þeir síðan úrslitaeinvíginu gegn Cleveland Cavaliers eftir að hafa verið yfir 3-1 og að flestum er það talið stærra hnoss að vinna titilinn heldur en að eiga einhvern sérstakan árangur á tímabili. Eitthvað segir okkur hinsvegar að Golden State Warriors eigi eftir að halda í sitt met lengur heldur en að Cleveland Cavaliers eiga eftir að vera meistarar.

 

 

7. Allen Iverson þakkar fyrir sig í frægðarhöllinni

Þakkaræður aðila sem hljóta aðgöngu í frægðarhöll Naismith koma í öllum regnbogans litum. Á þessu ári voru það Yao Ming, Cumberland Posey, Sheryl Swoopes, Zelmo Beaty, Shaquille O´Neal og Allen Iverson sem að hlutu inngöngu. Þakkaræða þess síðst nefnda var hreint óborganleg, en í henni vitnar hann í Rick James, talar til dóttur sinnar með mjög vafasamri barnarödd og sendir kveðjur til rapparanna Jadakiss, Beanie Sigel, Fabolous og Dipset hópsins svo eitthvað sé nefnt. Ef að þú hefur ekki horft á þetta og átt 30 auka mínútur, þá mælum við sterklega með þessu, frábært.

 

 

8. Lebron eltir drauginn frá Chicago

Eftir mikinn sigur vorið áður í úrslitakeppni NBA deildarinnar opnar Lebron James sig um metnað sinn í forsíðuviðtali við Sports Illustrated í byrjun ágúst. Þar segist hann meðal annars vera að elta draug, draug sem að spilaði eitt sinn í Chicago. Þar er hann án alls vafa að tala um Michael Jordan og afrek sem að hann vann á sínum feril. Mjög áhugavert viðtal og sérstaklega gaman að vita af því að besti leikmaður seildarinnar síðustu ár sé á höttunum eftir því að verða að lokum talinn besti körfuknattleiksmaður allra tíma.

 

 

9. Stephen Curry missir vitið 

Í næst síðasta leik úrslita síðasta tímabils í NBA deildinni missti verðmætasti leikmaður deildarinnar, Stephen Curry, stjórn á sér og kastaði góm sínum framan í áhorfanda í Quicken Loans höllinni í Cleveland. Atvikið átti sér stað undir lok leiksins þegar að Cavaliers voru með fína forystu og allt leit út fyrir að liðin væru að fara aftur til Oakland til þess að leika oddaleik um titilinn. Sem slíkt er ekki skrýtið að leikmenn, í hita leiksins, missi aðeins á sér stjórn og geri einhverja slíka hluti. Þarna var það hinsvegar hinn ofur geðgóði og yfirvegaði Stephen Curry, sem allir elskuðu, að missa vitið. Algjör vendipunktur fyrir seríuna þar sem að flestir, ef ekki allir, sem voru að horfa fóru að hallast á það að Cleveland Cavaliers væri mögulegt að klára þessa erfiðu aðstöðu (1-3) sem þeir höfðu verið í aðeins einum leik áður. Stephen Curry var hent út úr húsi og aldrei síðan hefur hann verið álitinn þessi góði drengur sem áður.

 

 

10. Duncan hætti að mæta í vinnuna

Eftir árangursríkan feril ákvað Stóra Undirstöðuatriðið, Tim Duncan, að hætta eftir 19 ár hjá San Antonio Spurs. Yfir ferilinn vann hann 5 meistaratitla, var í 2 skipti verðmætasti leikmaður deildarinnar og var í 15 skipti valinn til þess að leika í stjörnuleiknum. Ólíkt samferðarmanni sínum, Kobe Bryant, gerði Duncan nákvæmlega ekkert úr því að hann var að hætta. Einfaldlega lét liðið vita að hann myndi ekki mæta þetta tímabilið.