Þórsarar fögnuðu þriðja sigrinum í röð á heimavelli í dag þegar þeir lögðu ÍR í 8. Umferð Domino´s deildar karla í körfubolta 78-62.

 

 

Það voru þó gestirnir úr Breiðholtinu sem skoruðu fyrstu stig leiksins en þá setti Kristinn Marinósson niður þrist eftir rúmlega hálfra mínútna leik. Þórsarar komust svo yfir 5-3 og þeir litu aldrei til baka og leiddu eftir fyrsta leikhluta með sex stigum 23-17.

 

Þórsarar bættu jafnt og þétt við forskotið í öðrum leikhluta og höfðu náð 16 stiga forskoti þegar þrjár mínútur lifðu leikhlutans 40-26. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks slökuðu Þórsarar á og gestirnir gengu á lagið og náðu að saxa á forskotið og skoruðu 10-2 á þeim kafla. Þór leiddi með sex stigum í hálfleik 42-36.

 

Þór hafði góð tök á leiknum í fjórða leikhluta líkt og yfir höfuð í leiknum en gestunum tókst þó í upphafi leikhlutans að minnka muninn í sjö stig 57-50 en nær komust þeir ekki. Þórsarar bættu þá aftur í og juku muninn jafnt og þétt og þegar um 1:20 lifðu leiks var munurinn 20 stig 78-58. 

 

ÍR ingar skoruðu svo síðustu fjögur stig leiksins og komu muninum niður í  16 stig. Sanngjarn 78-62 sigur Þórs í höfn og liðið er nú í 5.- 8. sæti deildarinnar með 8 stig líkt og Njarðvík, Þór Þ. og Skallagrímur. 

 

ÍR ingar sitja sem fyrr í næst neðsta sæti deildarinnar með 4 stig. 

 

Sigur Þórs var sannkallaður vinnusigur þar sem sterk liðsheild lagði grunninn að góðum sigri.

 

Stigahæstir í liði Þórs voru þeir Danero Thomas og George Beamon með 22 stig hvor. Beamon tók ennfremur 12 fráköst og Danero 11. Darrell Lewis var með 11 stig og 7 fráköst,  Þeir Ragnar Helgi og Tryggvi Snær voru með 9 stig hvor þá átti Tryggvi nokkrar troðslur og varði fjölmörg skot. Ingvi Rafn var með 3 stig og Þröstur Leó 2.

 

Hjá ÍR var Hákon Örn Hjálmarsson stigahæstur með 13 stig, Sveinbjörn Claessen með 12 og Quincy Hankins-Cole 10 stig og 16 fráköst. Hjalti Friðriksson 8 stig, Matthías Orri 5, Matthew Hunter 4, Kristinn Marinósson og Sæþór Elmar 3 stig hvor og þeir Daði Berg og Vilhjálmur Thodór 2 stig hvor. 

 

Gangur leiks: 23/17 – 19/19 – 15/9 – 21/17

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Páll Jóhannesson

 

Viðtöl: