Haukar fóru vestur á firði í dag og mættu þar heimamönnum í Vestra í Maltbikarnum. Hvorugt liðið hefur átt gott gengi í vetur en Haukar eru þriðju neðstir í Domino's deildinni á meðan Vestri eru þriðju neðstir í 1. deildinni. 

 

 
En það var ekki að sjá á fyrstu 20 mínútunum að liðin spiluðu ekki í sömu deild. Ísfirðingar stóðu algjörlega jafnfætis gestunum framan af og skildi einungis eitt stig liðin af í hálfleik. Í seinni hálfleik mætti þó einungis eitt lið til leiks og það voru Haukar sem fóru heim með yfirburðar sigur, 109-68, og farseðil í 16 liða úrslitin.

 
Þáttaskil:
Leikmenn Hauka fengu sér væntanlega Malt í hálfleik því þeir mættu brjálaðir til leiks í þriðja leikhluta á meðan allt Malt vantaði í vestanmenn. Á fyrstu fimm og hálfri mínútunni skoruðu Haukar 22 stig á móti engu stigi heimamanna og gerðu út um leikinn. Samtals skoruðu þeir 61 stig í seinni hálfleik á móti einungis 21 stigi Vestra.
 
Tölfræðin:
Allir leikmenn Hauka komust á blað en fremstur meðal jafningja var þó Sherrod Nigel Wright sem skoraði 32 stig. Hjá Vestra var Yima Chia-Kur atkvæðamestur með 17 stig.
 
 
 
 
 
 
Umfjöllun / Sturla Stígsson