Valur fékk Njarðvík í heimsókn að Hlíðarenda í kvöld. Þegar liðin mættust í upphafi deildarkeppninnar fór Njarðvík með nauman sigur af hólmi. Gengi beggja liða hefur komið nokkuð á óvart. Valur hafði fyrir leikinn aðeins unnið einn leik en nýliðar Njarðvíkur verið spútnik lið deildarinnar en í kvöld léku þær án síns besta leikmans Carmen Tyson Thomas en það munar um minna.

 

 

Þrátt fyrir fjarveru Carmen var ljóst að Njarðvíkurstúlkur ætluðu ekki að láta Val leikinn eftir fyrirhafnarlaust. Jafnræði var með liðunum í byrjun en um miðbik annars leikhluta fór Valur að síga framúr. Njarðvík kom þó alltaf í humátt á eftir en það virtist á köflum sem leikmenn Vals hefðu takmarkaðan áhuga á því að leggja mikið erfiði á sig í vörninni og ekki gera meira en þyrfti til að klára leikinn. Njarðvíkurkonur gerðu sér líka erfitt fyrir með því að stíga ekki út því Valur náði alloft sóknarfrákasti í fyrri hálfleik.

Valsliðið byjraði seinnihálfleikinn af krafti og meiri ákvefð var í varnarleiknum. Þær juku muninn jafnt og þétt. Njarðvíkurstúlkur börðust þó vel og náðu nokkrum sinnum að koma muninum niðurfyrir tíu stig. Það dugði þó ekki til og eftir að hafa minkað muninn niður í 8 stig um miðjan fjórða leikhluta komust þær ekki nær og Valur kláraði leikinn og landaði 19 stiga sigri.

 

 

Hetjan

Mia Loyd var besti leikmaður vallarins, hún skoraði 26 stig og tók 17 fráköst. Njarðvík réð illa við hana undir körfunni þar sem hún náði alloft að skora og fá víti að auki.

 

 

Tölfræðin

Valur var með 45% tveggja stiga nýtingu en Njarðvík 40% og bæði lið hittu úr um 30% þriggja stiga skota sinna. Valur hafði betur í frákastabaráttunni og tók helmingi fleiri sóknarfráköst. Njarðvík tapaði boltanum sautján sinnum á móti tólf töpuðum boltum Valsara.

 

Kjarninn

Lokatölurnar eru í raun ekki lýsandi fyrir gang leiksins. Valur vann sinn annan sigur í deildinni en situr þó sem fastast á botninum. Hver sigur er þeim lífsnauðsynlegur ætli þær að eiga fræðilegan möguleika á úrslitakeppnissæti. Njarðvík saknar sárlega framlags Carmen Tyson-Thomas enda án vafa besti leikmaður deildarinnar en hafa þó sýnt að það býr ýmislegt meira í liðinu. Ætli liðið að halda dampi og fylgja eftir góðri byrjun þurfa þær þó að fá hana til baka sem allra fyrst.

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir

Mynd / Torfi Magnússon