Körfuknattleiksdeild Tindastóls gaf út tilkynningu rétt í þessu þess efnis að erlendir leikmenn liðsins hafa verið látnir fara auk þess sem Jose Costa var látinn taka pokann sinn. 

 

José Maria Costa tók við liðinu fyrir ári síðan af Pieti Poikola og náði að stýra því í ár. Tindastóll féll úr leik í undanúrslitum gegn Haukum á síðasta tímabili og hafa farið heldur ósannfærandi af stað þetta tímabilið. Pape Seck lék ekki með liðinu í síðasta leik og hafði fyrir það einungis leikið 11 mínútur að meðaltali í leik. 

 

Hinn umdeildi Mamadou Samb hefur einnig verið látinn fara eftir sex leiki, hann skilaði 22 stigum og 9,5 fráköstum að meðaltali í leik. Hann þótti hinsvegar ekki henta leikstíl Dominos deildarinnar sérlega vel og hefur verið nokkuð gagnrýndur. Af þessum sökum hafa þremenningarnir fengið reisupassann og fara því frá Tindastól. 

 

Aðstoðarþjálfari Costa hjá Tindastól Israel Martin er tekinn við Skagafjarðarskútunni og er ætlað að sigla henni í höfn. Israel Martin er þekktur í íslenskum körfubolta en hann var þjálfari Tindastóls fyrir tveim árum er liðið komst í úrslitaeinvígið gegn KR nokkuð óvænt og áttu frábært tímabil. Martin fór eftir tímabilið til Bakken Bears í Danmörku og átti fínt tímabil, var meðal annars valinn þjálfari ársins þar í landi. Pressan sem fylgir þjálfarastöðu hjá danska stórveldinu er hinsvegar svo mikil að þrátt fyrir þetta var hann látinn fara frá Bakken Bears í sumar. 

 

Í sumar kom hann síðan aftur á Sauðárkrók og gengdi stöðu aðstoðarþjálfara auk þess að vinna meira fyrir félagið. Hann er nú aftur tekinn við og klárt að sauðkrækingar ætla sér stóra hluti. 

 

Félagið hefur þá samið við Antonio Hester en hann hafði einnig samið við félagið í sumar áður en Tindastóll náði í Mamadou Samb. Hester er nærri tveggja metra maður sem leikur stöðu miðherja, myndband af honum má sjá hér að neðan: 

 

Tilkynningu Tindastóls í heild sinni á Feykir.is má sjá hér að neðan:

Stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls hefur komist að samkomulagi við Jose Maria Costa um að hann láti af störfum sem yfirþjálfari félagsins. Er stjórnin sammála um að leiðir Costa og stjórnar liggi ekki í sömu átt og því var komist að samkomulagi um að hann léti af störfum. Pape Seck og Mamadou Samb hafa einnig verið leystir undan samningi og leika ekki meira fyrir félagið.

 

Að sögn Stefáns Jónssonar formanns deildarinnar vill stjórnin koma fram sínu mesta þakklæti til Costa fyrir hans framlag til félagsins undanfarið eitt ár sem og til leikmannanna tveggja.

 

 

Félagið hefur gengið frá ráðningu við Israel Martin um að hann taki við stöðu yfirþjálfara og er hann núna í þessum skrifuðum orðum að stýra sinni fyrstu æfingu sem slíkur. Eins og allir vita þá er hann öllum hnútum kunnugur innan félagsins sem fyrrverandi þjálfari liðsins og aðstoðarþjálfari í haust.

 

Félagið hefur gengið frá ráðningu á Bandaríkjamanninum Antonio Kurtis Hester og er hann væntanlegur til landsins í nótt. Hester, sem Tindastóll hafði samið við í sumar, er kraft framherji, rétt tæplega tveggja metra hár, og hefur leikið með Miami Midnites í ABA deildinni vestan hafs.

Stefán segir að þar sem allir pappírar voru til frá því í ágúst tók óvenju stuttan tíma að fá Kurtis til landsins.