Þrír leikir fóru fram fyrri part dags í Maltbikar karla. Haukar b, Þór Ak og Tindastóll verða í hattinum þegar dregið verður í átta liða úrslitum Maltbikarsins á þriðjudaginn.

 

Það er ekki hægt að segja að mikil spenna hafi verið í þessum þrem leikjum en þeir unnust allir með öruggri forystu.

 

KR b stilti upp ansi goðsagnakenndu liði gegn Dominos deildar liði Tindastóls. Fannar Ólafsson, Skarphéðinn Ingason, Steinar Kaldal og Ólafur Ægisson voru meðal leikmanna KR bara svo nokkrir séu nefndir.

 

Það var nú samt ekki nóg til þess að klára Tindastól í þessum leik, Munurinn var „eingöngu“ 15 stig í hálfleik en leikmenn KR b eiga það sameiginlegt að vera komnir af sínu léttasta skeiði. Þegar leið á leikinn áttu leikmenn Tindastóls meira eftir á tanknum og unnu á endanum 38 stiga sigur, 101-63 gegn KR b.

 

Þór Ak. fór í heimsókn á Flúðir þar sem sameiginlegt lið Hrunamanna og Laugdæla tók á móti þeim. Eftir nokkuð jafnan fyrsta fjórðung skildi Þór sunnlendinga eftir í reyknum og sigruðu að lokum. Lokastaða 68-96 og akureyringar komnir í 16 liða úrslit.

 

Á Álftanesi mættu svo Haukar b í heimsókn, þar var ekki spenna frekar en annarsstaðar en lokastaðan var 62-104 Haukum b í vil.

 

Nú þegar er hafinn leikur KR og Gnúpverja en hann er í beinni útsendingu á KR TV. Einnig fer fram leikur Grindavíkur og Stjörnunnar og á Akranesi fær ÍA Fjölni í heimsókn. Þessir leikir fara fram kl 19:15.