Njarðvík fékk tækifæri á að koma til baka eftir stórtapið gegn Tindastól í síðustu umferð er liðið fékk Skallagrím í heimsókn í fimmtu umferð Dominos deildar karla.

 

Njarðvík náði fljótt forystu og hélt henni nokkuð vel til loka. Skallagrímur gerði góðar atlögur að sigrinum en stórskyttur Njarðvíkur gjörsamlega kafsigldu Borgnesingum á lokasprettinum og lokastaðan 94-80.

 

Þáttaskil:

Njarðvík gaf tóninn frá fyrstu mínútu, komust strax yfir og Skallagrímur fór í það hlutverk að elta frá upphafi. Skallagrímur átti fínar rispur í leiknum og var nálægt því að búa til alvöru spennu í fjórða leikhluta en þá fóru Njarðvíkur-byssurnar af stað og hreinlega skutu Borgnesinga í kaf.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Annan leikinn í röð er Skallagrímur að tapa yfir tuttugu boltum í einum leik. Í dag 21 gegn sjö hjá Njarðvík, þessi tölfræði gerir það nánast ómögulegt að sigra körfuboltaleik. Njarðvík var hinsvegar á eldi við þriggja stiga línuna, hittu 18 slíkum í 40 skotum. Sem er það mesta sem sést hefur í Dominos deildinni á þessu tímabili. Skallagrímur var með mun fleiri fráköst í leiknum eins og búast mátti við en nýtir sér það ekki með því að fá fleiri skot í leiknum.

 

Hetjan:

Brotthvarf Corbin Jackson býr til tækifæri fyrir Njarðvík að spila hinum magnaða Stefan Bonneau meira og var hann mikilvægur í kvöld. Gat búið sér til skot úr engu og náði í stig þegar Skallagrímur var að nálgast. Einnig þarf að nefna Pál Kristinsson sem byrjaði í dag og átti stóran þátt í sigrinum. Hjá Skallagrím var gaman að sjá Bjarna Guðmann Jónsson koma af bekknum, hann sótti tvo stóra ruðninga og var virkilega öflugur.

 

Kjarninn:

Njarðvík er komið með annað sigur sinn í deildinni og koma vel til baka eftir skell á Sauðárkróki. Liðið átti að lenda í vandræðum vegna þess að þeir væru of lágvaxnir inní teignum en voru hreyfanlegir og klókir í lausnum á því. Skallagrímur nýtti sér þetta hinsvegar ekki nægilega vel, Flenard Whitfield dripplaði boltanum alltof mikið og sótti frá körfunni í stað þess að nýta sér klára yfirburði inní teig. Dómarar leiksins hefðu mátt leyfa leiknum að fljóta betur, mikið var um léttvægar villur sem hægðu á og voru þeir í of sýnilegir í leiknum. Þegar allt er talið er körfubolti sanngjörn íþrótt og sigur Njarðvíkur sanngjarn.