Leikur Þórs og Hauka sem fram fór í kvöld var hin besta skemmtun þar var boðið uppá miklar sveiflur í leik liðanna, framlengingu og umfram allt gríðarlega spennu.

 

Þórsliðið byrjaði leikinn af miklum krafti og skoruðu frískir Þórsarar sjö fyrstu stigin áður en gestirnir komust á blað. Þórsarar komust svo í 11-2 og eftir sjö mínútna leik var munurinn orðin 10 stig 19-9. Þá kom 2-5 kafli hjá gestunum og staðan eftir fyrsta leikhluta 21-14.

 

Þórsliðið hóf annan leikhluta af sama krafti og þann fyrsta og þegar sex mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta var forskot Þórs komið í 15 stig 40-25. Það sem eftir lifði annars leikhluta spýttu gestirnir í lófana og gerðu áhlaup á heimamenn og skoruðu 10 stig gegn þremur og staðan í hálfleik 43-35.

 

Gestirnir hófu síðari hálfleikinn af sama krafti og þeir luku fyrri hálfleiknum þ.e. með miklu áhlaupi. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu þeir skorað 2-11 og komnir yfir 45-46. Haukar leiddu svo með einu stigi þegar fjórði leikhlutinn hófst 54-55.

 

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi frá upphafi til enda og varla fyrir hjartveika. Eftir þriggja mínútna kafla hafði Þór aftur náð forystunni 61-56 og spennan í hámarki. Þegar tæp mínúta var eftir skoraði Jalen Riley þriggja stiga körfu og kom Þór í 74-71. En strax í næstu sókn jafnaði Sherrod Wright með góðri körfu og víti að auki 74-74.

 

Þegar venjulegum leiktíma kom Darrel Þór yfir 77-75 og um 3 sekúndur eftir af leiktímanum. Áhorfendur töldu nú björninn unninn en svo var aldeilis ekki. Haukar taka leikhlé og ráða ráðum sínum. Þegar leikurinn fór aftur af stað koma þeir boltanum á Sherrod Wright og Danero braut á honum og Wright fór á vítalínuna og setti bæði skotin niður og jafnaði leikinn 77-77 og leikurinn fór í framlengingu.

 

Í framlengingunni reyndust Þórsarar sterkari aðilinn og náðu um tíma sex stiga forskoti 86-80. Haukar reyndu allt hvað þeir gátu en Þórsarar lönduðu sætum þriggja stiga sigri 96-93 fyrsti sigur vetrarins á heimavelli.

 

Leikur liðanna var hin besta skemmtun þar sem boðið var uppá góðan körfubolta, spennu og læti eins og stundum er sagt.

Stigahæstur í liði Þórs var Jalen Riley með 25 stig 3 stoðsendingar og 6 fráköst,  Danero var frábær í kvöld með 19 stig og 17 fráköst, Darrel Lewis 19 stig. Tryggvi Snær 11 og 8 fráköst, Ingvi Rafn 10 stig, Þröstur Leó 7 og Ragnar Helgi 5 stig og 7 stoðsendingar.

 

Hjá Haukum voru þeir Kristján Leifur Sverrisson og Sherrod Wright með 23 stig hvor ennfremur var Kristján með 11 fráköst, Haukur Óskarsson 17, Emil Barja 15 og 8 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 8 stig, Finnur Atli Magnússon 5 og Breki Gylfason 2.

 

Með sigrinum lyfti Þór sér upp í 9. sætið nú með 4 stig eftir fimm leiki en Haukar eru nú í tíunda sætinu enn með 2 stig.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Páll Jóhannesson

 

Viðtöl: