Liðið Hrunamenn/Laugdælir tók móti Þór frá Akureyri í 32ja liða úrslitum Maltbikarsins. Fyrir leikinn var ljóst að það yrði við ramman reip að draga fyrir heimamenn enda heil deild á milli liðanna í Íslandsmóti. Þrátt fyrir þennan mun mættu Hrunamenn/Laugdælir ákveðnir til leiks og skoruðu fyrstu körfuna, Sigurður Sigurjónsson með þá körfu og í framhaldi af því héldu heimamenn ágætlega í við úrvalsdeildarliðið. Frá þessu er greint Facebook-síðu Hrunamanna/Laugdæla.

Nánar um leikinn í frétt Hrunamanna/Laugdæla

Með nokkrum góðum köflum náðu gestirnir þó að slíta heimamenn af sér og búa til þægilegt forskot sem þeir héldu að mestu þar til yfir lauk. Staðan í hálfleik var 47-26 en í 3.leikhluta bitu heimamenn frá sér með því að sigra leikhlutann og munurinn fyrir lokaleikhutann aðeins 16 stig. Í honum náðu hins vegar gestirnir að sýna góðan leik og unnu að lokum með 28 stigum 96-68.

Í þessum leik mátti sjá ný andlti á vellinum frá fyrri leikjum vetrarins. Hjálmur Hjálmsson lék sinn fyrsta leik eftir að hafa glímt við bakmeiðsl og stóð sannarlega fyrir sínu. Þá tefldu Hrunamenn/Laugdælir fram bandarískum leikmann, Russell Johnson og sýndi hann mjög góða takta þrátt fyrir að hafa lent í gær og ekki náð æfingu með liðinu.

Florijan heldur áfram að draga vagninn í stigaskorun, kappinn setti 23 stig og reif niður 12 fráköst, öflugur leikmaður sem einnig hefur reynst félögunum vel í þjálfun yngri flokka.

Næsti leikur Hrunamanna/Laugdæla verður í íþróttahúsi Kennaraháskólans gegn Leikni R. laugardaginn 12.nóv. Sá leikur er í 2.deild karla hvar uppsveitamenn standa vel að vígi, ósigraðir og efstir í deildinni ásamt Haukum b.

Stigaskor leiksins:

Hrunamenn/Laugdælir: Florijan 23, Russell 17, Hjálmur 6, Siggi 5, Halldór Fjalar 3, Vitaliy 3, Eddi 3, Orri 2, Anton 2, Pálmi 2 og Bjarni 2.

Þór Akureyri: Danero Thomas 23, Arnór Jónsson 20, Ingvi Rafn Ingvason 14, Jalen Ross Reiley 13, Ragnar Helgi Friðriksson 12, Tryggvi Snær Hlinason 6, Sindri Davíðsson 4, Einar Ómar Eyjólfsson 4.