Þórsarar frá Þorlákshöfn mættu í DHL höllina í kvöld og sóttu gríðarlega sterkan sigur á KR, 75-90. KR-ingar byrjuðu betur en í seinni hálfleik tók vörn gestanna við sér og þeir sigldu þessu sanngjarnt heim á lokamínútunum eftir að KR hafði gert áhlaup. Tobin Carberry var stigahæstur hjá Þór með 33 stig en Brynjar Þór Björnsson setti 26 stig fyrir heimamenn.

 

Meiðsladraugurinn snýr aftur

Enn og aftur meiðist Pavel Ermolinski. Eftir einungis 3 mínútur kenndi hann sér meins í kálfa og fékk skiptingu. Eftir stutta yfirferð hjá sjúkraþjálfara KR liðsins yfirgaf Pavel salinn og sneri ekki aftur. Ömurleg tíðindi fyrir þennann frábæra leikmann sem og áðdáendur góðs körfubolta, vonandi snýr kappinn aftur á völlinn sem fyrst.

 

Skúrkurinn

Cedrick Bowen var í miklum vandræðum í leik þar sem hann hefði átt að hafa talsverða líkamlega yfirburði. Hefði getað sýnt mikið meira, sérstaklega eftir að Pavel fór meiddur útaf. Hann missti boltann mikið frá sér í teignum eða náði ekki góðu skoti og lét aggressíva vörn Þórsara fara í taugarnar á sér. KR-ingar þurfa miklu meira en 6 stig og 7 fráköst frá honum.

 

Krepputíminn

Í krepputímanum (e. crunchtime) voru Þórsarar mikið sterkari. Þeir létu einfaldlega sinn besta leikmann Tobin Carberry um að brjóta niður vörn KR-inga og hreyfðu svo boltann vel í kjölfarið til þess að fá opin skot ef Tobin kláraði ekki bara sjálfur. Það var svo Ólafur Helgi sem lokaði leiknum með huggulegum þristi þegar að rúm mínúta var eftir. KR-ingar fóru hins vegar illa að ráði sínu á lokamínútunum, sóknarleikurinn var staður og fyrirsjáanlegur og gerðu lykilmennirnir Darri Hilmarsson og Cedrick Bowen sig seka um slæm mistök. Ekkert skal þó tekið af Þórsurum og var vörnin þeirra frábær allann seinni hálfleikinn.

 

Hetjan

Tobin Carberry var frábær í kvöld og skoraði körfur í öllum regnbogans litum auk þess sem hann var duglegur við að finna félaga sína í opnum færum, bæði fyrir utan og undir körfunni. KR-ingar réðu ekkert við hann og valsaði hann inn í teiginn þegar hann langaði. Uppskeran heldur ekki af verri endanum, 33 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar hjá kappanum sem er að reynast þórsurum alger happafengur. 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson

Mynd / Davíð Eldur

 

Viðtöl: