Snæfellingar frá Stykkishólmi mættu í Höllina að Hlíðarenda í kvöld. Jafnræði var með liðunum framan af en þegar að líða tók á fyrri hálfleikinn  náðu Valsmenn um það bil 10 stiga forystu sem þeir létu ekki af hendi þrátt fyrir endurteknar tilraunir Hólmara til þess að minnka muninn, niðurstaðan var sanngjarn 11 stiga sigur Valsmanna. Sefton Barrett var atkvæðamestur gestanna með 19 stig og 10 fráköst en hjá Valsmönnum var Urald King með 16 stig og 16 fráköst. 

 

 

Nýr Erlendur leikmaður.
 
Valsmenn frumsýndu nýjan erlendann leikmann í dag, sá heitir Urald King og hefur verið á landinu í dágóðann tíma en það hefur verið erfitt að fá leikheimild fyrir hann. King spilaði afskaplega flotta vörn, lét til sín taka í sóknarleiknum og átti 3 frábærar troðslur úr hraðaupphlaupum. Hann gerði sér einnig lítið fyrir og passaði körfuna vel með 5 vörðum skotum. 
 
 
Áhugaverð tölfræði. 
 
Valsmenn höfðu talsverða yfirburði í hinum ýmsu tölfræðiflokkum. Þeir unnu til að mynda frákastabaráttuna 50-36 og munaði þar um fyrrnefndan King sem og Illuga Auðunsson sem kom sterkur af bekknum og reif niður 10 stykki. Báðum liðunum tókst að setja niður 7 þriggja stiga skot en munurinn var sá að Snæfellingar þurftu 26 skot til þess arna, en Valsmenn einungis 16. 
 
 
Varnarleikur.
 
Eins og fyrr segir þá spiluðu Valsmenn frábærann varnarleik allan leikinn og þá sérstaklega í þriðja leikhluta. Allir leikmenn liðsins tóku virkann  þátt í því að gera leikmönnum Snæfells erfitt fyrir í sókninni og ef einhverjum tókst að komast upp að körfunni þá biðu stórir menn Vals þar tilbúnir að passa hringinn. Snæfellingar voru samt sjálfum sér verstir að mörgu leyti, voru staðir og töpuðu mörgum boltum á klaufalegan hátt. 
 
 
Í hnotskurn.
 
Það er ekki oft sem að lið sem leikur í fyrstu deild sigrar úrvalsdeilarlið, hvað þá þetta sannfærandi. Snæfellingar gerðu ekkert í leiknum sem fær mann til þess að sjá einhvern möguleika á því að þeir bjargi sér frá falli, Þetta verður erfiður vetur í Hólminum. Valsmenn hins vegar eru með ágætis breidd og stefna klárlega lengra í bikarnum sem og á úrvalsdeildarsæti næsta vetur.  
 
 

Tölfræði leiks

Myndasafn – Þorsteinn Eyþórsson

Myndasafn – Bára Dröfn

 

Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson

Mynd / Bára Dröfn