Tveim leikjum er lokið í Maltbikarkeppni kvenna þar sem úrvalsdeildarlið mættust innbyrgðis.

 

Valskonur ætluðu að hefna fyrir ósigurinn gegn Snæfell um daginn en liðið tapaði þá með tveim stigum eftir flautukörfu. Liðin mættust aftur í dag en nú í Stykkishólmi. Valskonur fóru vel af stað, leiddu nánast allan fyrri hálfleik en munurinn aldrei meiri en átta stig.

 

Snæfell komst yfir en liðin skiptust hreinlega á að hafa forystuna og skiptust á henni alls 13 sinnum í leiknum. Þriggja stiga karfa Pálínu Gunnlaugsdóttur þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum reyndist sigurkarfan og endaði leikurinn 79-76 Snæfell í vil.

 

Bikarmeistararnir því komnir í átta liða úrslit en Valur tapar enn jöfnuð leikjum en liðið hefur einungis unnið einn leik það sem af er tímabili.

 

Í Grindavík komust svo heimakonur áfram í bikarkeppninni gegn nágrönnum sínum í Njarðvík. Frábær fyrsti leikhluti Grindavíkur gaf tóninn og elti Njarðvík allar götur eftir það.

 

Það hjálpaði ekki að Carmen Tyson-Thomas meiddist í lok fyrri hálfleiks og lék ekki meira með en hún hefur verið allra besti leikmaður deilarinnar hingað til.

 

Njarðvík komst aldrei almennilega aftur í leikinn og 85-70 sigur Grindavíkur staðreynd.

 

Það eru því Grindavík, Snæfell, Skallagrímur, Breiðablik, Stjarnan, Haukar, Keflavík og KR sem eru komin í átta liða úrslit Maltbikarsins en dregið verður í næstu umferð á þriðjudaginn.