Íslands- og bikarmeistarar Snæfells byrjuðu illa í Ljónagryfjunni gegn Njarðvík í dag en hertu svo tökin og unnu öruggan 38-69 sigur á Njarðvíkingum með þéttum varnarleik. Aaryn Ellenberg-Wiley var stigahæst í liði Snæfells með 20 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar, aðeins einni stoðsendingu frá þrennunni! Hjá Njarðvíkingum var Björk Gunnarsdóttir atkvæðamest með 12 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar.

Carmen-lausar byrjuðu heimakonur í Njarðvík 11-0 en þá tóku gestirnir við sér, jöfnuðu 11-11 en Njarðvík leiddi 16-13 eftir fyrsta leikhluta. Strax í öðrum leikhluta hertu meistarar Snæfells tökin í vörninni og Njarðvíkingar lentu í basli með að finna körfuna. Aaryn Wiley tók svo laglega rispu undir lok fyrri hálfleiks og sá til þess að Snæfell leiddi 21-34 í leikhléi.

Í þriðja leikhluta gerði Snæfell svo endanlega út um leikinn, unnu þriðja 8-22. Vörnin flott og Njarðvíkingar sættu sig oftar við erfið skot fremur en að ráðast að körfunni og skotprósentan gaf einnig til kynna að það vantaði nokkra trú á skotin, 25% í teignum og aðeins 50% vítanýting.

Vissulega munar um minna í liði Njarðvíkinga þegar Carmen er fjarverandi en leikmannahópurinn verður engu að síður að finna sterkari þörf hjá sér til þess að taka af skarið sóknarlega. Agnar Mar Gunnarsson þjálfari Njarðvíkinga sagði eftir leik að vonandi yrði Carmen með strax eftir landsleikjahlé. Snæfellsmegin vantaði Gunnhildi sem hvíldi vegna höfuðhöggs en þær Alda Leif og Bryndís Guðmundsdóttir eru komnar aftur á fullt sem eykur dýpt meistaranna til muna. Lokatölur voru svo 38-69 fyrir Snæfell eins og áður greinir.

Njarðvík-Snæfell 38-69 (16-13, 5-21, 8-22, 9-13) 
Njarðvík:
Björk Gunnarsdótir 12, María Jónsdóttir 10/10 fráköst, Heiða Björg Valdimarsdóttir 5, Alexandra Eva Sverrisdóttir 3, Júlia Scheving Steindórsdóttir 2/4 fráköst, Soffía Rún Skúladóttir 2/5 fráköst, Hera Sóley Sölvadóttir 2/4 fráköst, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 2, Árnína Lena Rúnarsdóttir 0, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir 0, Svala Sigurðadóttir 0, Hulda Bergsteinsdóttir 0.
Snæfell: Aaryn Ellenberg-Wiley 20/12 fráköst/9 stoðsendingar, Berglind Gunnarsdóttir 12, Pálína María Gunnlaugsdóttir 9/8 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 6, Sara Diljá Sigurðardóttir 6/5 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 6/6 fráköst, María Björnsdóttir 5, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 3, Andrea Björt Ólafsdóttir 2, Alda Leif Jónsdóttir 0, Hrafnhildur Magnúsdóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Aðalsteinn Hrafnkelsson, Birgir Guðbjörnsson
Áhorfendur: 310

Tölfræði leiksins

Bergilind Gunnarsdóttir – Snæfell

Agnar Mar Gunnarsson – Njarðvík

Myndir/ umfjöllun/ viðtöl – nonni@karfan.is