Íslenska kvennalandsliðið tapaði stórt gegn Slóvakíu í undankeppni Eurobasket 2017 í dag. Slóvakar náðu strax forystu og var Ísland til að mynda eingöngu með sex stig eftir fyrsta leikhluta, öll frá Pálínu Gunnlaugsdóttur.

Ísland náði aldrei að sína sitt rétta andlit og urðu hreinlega undir gegn ógnarsterku liði Slóvaka. Fyrirfram var vitað að verkefni dagsins yrði erfitt en tapið var þó óþarflega stórt.

 

Lokastaðan var 86-40 Slóvökum í vil, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var stigahæst með sjö stig en allir leikmenn íslenska liðsins settu stig sem er einn af fáum ljósu punktum leiksins. Að öðrum ólöstuðum var Sandra Linda Þrastardóttir líklega líflegust íslenska liðsins en hún reif niður sjö fráköst og gafst aldrei upp.

Íslenska liðið mætir Portúgal á miðvikudaginn kl 19:30 í Laugardalshöllina og ljóst að íslenska liðið vill hefna ófarana í fyrri leik liðanna.

 

Þáttaskil:

Frá fyrstu mínútu valtaði Slóvakía hreinlega yfir Ísland og komu einu stig Íslands í fyrsta fjórðung úr tveim þriggja stiga körfum Pálínu Gunnlaugsdóttur. Munurinn var því 20 stig strax í fyrsta leikhluta sem var bara hreinlega of mikið til að ná að koma til baka. Það var hreinlega eins og íslenska liðið væri ekki tilbúið í baráttuna og líkamlega styrk Slóvaka. Íslenska liðið kom sterkara inní annan leikhluta og þá sérstaklega varnarlega þar sem svæðisvörnin var ágæt, sóknarlega gekk aftur á móti herfilega að brjóta niður ógnarsterka vörn Slóvakíu. 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Það þarf ekki ítarlega greiningu á tölfræði til að komast að því hvar munurinn á liðunum liggur þegar taflan sýnir 46 stiga mun. Íslenska liðið tapaði 33 boltum í leiknum og þar af 20 í fyrri hálfleik, Slóvakía tapaði 23 boltum allan leikinn. Skotnýting Slóvakíu er 60,5% gegn 27,5% íslenska liðsins sem er ótrúlegur munur. Bekkur Slóvakíu skoraði einnig jafn mörg stig og íslenska liðið til saman sem kann ekki góðri lukku að stýra. 

 

Ljósið í myrkrinu: 

Þrátt fyrir lítið stigaskor Íslands dreifðist það gríðarlega á milli leikmanna og settu allir leikmenn á skýrslu Íslands stig. Gaman var að sjá ungu leikmennina Emelíu Ósk og Thelmu Dís koma inná óhræddar og tilbúnar að láta finna fyrir sér. Lykilmenn Íslands tóku ekki af skarið sóknarlega til að búa til sín almennilegar sóknir og því erfitt að velja besta leikmann íslenska liðsins. Sandra Lind Þrastardóttir var þó frákastahæst með 7 fráköst, 3 stig og sýndi mestu baráttuna í liðinu þegar ekkert gekk upp.

 

Kjarninn:

Slóvakía var bara hreinlega nokkrum númerum of stórar í dag. Fæstir bjuggust við sigri Íslands í dag en frammistaðan var ekki nægilega góð í dag. Slóvakar voru einfaldlega stærri, sterkari og með meiri gæði innan sinnan banda. Sú veika von sem var fyrir leikinn um að komast á Eurobasket slökknaði alveg með þessum leik en framundan er leikur gegn Portúgal í Laugardalshöll á miðvikudaginn. Leikmenn liðsins vilja sjálfsagt gleyma þessum leik sem fyrst og er gott tækifæri til þess á miðvikudaginn. 

 

Tölfræði leiksins