Á mánudagskvöld 7. nóvember fékk karlalið Breiðabliks lið Skallagríms í heimsókn í Smárann og heimamenn þurftu að lúta í lægra haldi fyrir gestunum í Maltbikarnum góða, 77-88.? Borgnesingar náðu forystu frá fyrstu mínútu og hleyptu Blikum aldrei fram úr sér, þrátt fyrir að leikurinn hafi verið mjög upp og niður.

 

 

Frá byrjun sýndi Flenard Whitfield stóru mönnum Breiðabliks hreyfanleika sem þeir réðu stundum frekar illa við, en hjálparvörnin var yfirleitt sein og tilþrifamaskína Borgnesinga endaði fór út af eftir rúmar 8 mínútur með 9 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar og 1 varið skot (ásamt einni misheppnaðari troðslu sem hefði eflaust komist í Körfuboltakvöld Domino's ef að hún hefði heppnast). Reynsluboltinn Maggi Gun náði sömuleiðis að trúða heimamenn í fyrsta leikhluta. Magnús, sem er ekki þekktastur fyrir hraða eða að komast að körfunni, lék sér að því að fara fram hjá Kópavogspiltunum og skilaðu 5 stigum í fyrsta leikhluta, tvö sniðskot og eitt and-1 víti sem hann sótti listilega. Blikar virtust seinir í gang í leikhlutanum en náðu aðeins að bjarga andlitinu með áhlaupi undir lokin. Staðan eftir fyrstu 10 mínútur; 19-28, Skallagrím í vil.

 

 

Annar leikhlutinn einkenndist af mörgum sóknarfráköstum og að menn sofnuðu mikið á verðinum í að stíga menn út, enda tóku bæði lið 40% af öllum sóknarfráköstum sínum í leiknum í þessum leikhluta. Skallagrímsmenn skiptust á að skora en Breiðablik passaði að missa þá aldrei of langt frá sér. Blikar náðu aftur í lok leikhlutans að ná smá áhlaupi og þegar gengið var inn í búningsklefanna í hálfleik höfðu þeir bætt stöðuna um 1 stig, 40-48 í hálfleik fyrir gestunum.

 

 

Blikar hófu seinni hálfleikinn með góðri vörn og þrist frá Snorra Vignissyni til að minnka muninn í 5 stig og undirritaður leyfði sér að vona að 1. deildar lið gæti stolið sigri á móti úrvalsdeildarliði. Skallagrímur ætlaði hins vegar ekki að hlusta á slíkt rugl og settu í hærri gír og tóku sitt eigið áhlaup þar sem að þeir skoruðu 17 stig á móti 4 stigum hjá Breiðablik. Enn og aftur reyndu Blikarnir að klóra í bakkann og náðu lítillega að laga stöðuna sem var þó orðinn 56-69 fyrir seinasta leikhlutann. Glæsilegasta flétta leikhlutans var án efa þegar Birkir Víðisson stökk hæð sína til að verja þriggja stiga skot Magnúsar Gunnarssonar og í hraðaupphlaupinu sem hlaust af þeirri blokk munaði minnstu að hann næði að setja sinn eigin þrist til að setja punktinn yfir i-ið.

 

Á seinustu 10 mínútunum reyndu heimamenn að taka áhlaup og náðu margsinnis að laga stöðuna í minna en 10 stig en þá höfðu Skallarnir alltaf svör við því (oft í formi þriggja stiga körfu). Blikar börðust allt til enda en gátu bara ekki unnið upp muninn sem Borgnesingar byggðu upp gegnum allan leikinn. Það var lítið hægt að gera því nær sem leikmenn nálguðust lokaflautuna og þegar hún gall var lokastaðan staðreynd; 77-88, Skallagrím í vil.

 

 

Þá er ljóst að Skallagrímur fer áfram í 16-liða úrslit og þeir munu þar mæta Valsmönnum. Fyrst þeir gátu unnið Breiðablik búast Kópavogsbúar fastlega við að þeir komist alla leið í úrslitaleik bikarsins og taki hvaða mótherja sem að þeir kynnu að hitta þar.

 

 

Breiðablik: Tyrone Garland 35 stig/4 stoðsendingar, Halldór Halldórsson 11 stig/7 fráköst/3 stoðsendingar, Birkir Víðisson 9 stig, Sveinbjörn Jóhannesson 7 stig/9 fráköst, Egill Vignisson 7 stig, Ragnar Jósef Ragnarsson 5 stig, Snorri Vignisson 3 stig/5 fráköst.

 

 

Skallagrímur: Flenard Whitfield 20 stig/9 fráköst/6 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 15 stig/7 stoðsendingar/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 14 stig/5 fráköst, Bjarni Guðmann Jónsson 10 stig/7 fráköst/3 stoðsendingar, Darrell Flake 9 stig, Davíð Guðmundsson 9 stig, Kristófer Gíslason 5 stig/8 fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 4 stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson 2 stig

 

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn

 

 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson

Mynd / Bjarni