Breiðablik tók á móti ÍA í Smáranum í gærkvöldi í 1. deild karla þar sem heimaliðið var með afgerandi sigur, 102-62, á gestunum sem áttu eiginlega aldrei séns eftir fyrsta leikhlutann. 

 
 
 
 
Kópavogspiltarnir byrjuðu heldur flatir fyrstu mínúturnar og Skagamenn gengu á lagið og náðu forystu sem að þeir héldu hálfan leikhlutann. Þegar Blikar skiptu varnarsinnuðum leikmönnum inn á fór staðan að snúast við. ÍA tók leikhlé og komu aftur inn í leikinn einbeittir og skoruðu 5 stig í röð til að halda forystunni. Þá fór Tyrone Garland alveg herfilega í gang og skoraði 15 stig af 17 stigum liðsins það sem eftir lifði fjórðungsins. Hin tvö stigin bjó Ty líka til með stuldi og stoðsendingu á Birki Víðisson. Á meðan að Blikar fóru að rúlla þá staðnaði sókn gestanna sem skoruðu einungis 4 stig á móti þessum 17 stigum hjá Breiðablik. Staðan í lok fyrsta leikhluta: 26-19 Blikum í vil

 
Í öðrum leikhluta hélt áhlaupið áfram og drengirnir úr Smáranum skoruðu 11 stig á móti 2 stigum Skagamanna. Ekkert gekk upp í sókn ÍA og Blikar spiluðu fantagóða vörn í þessum leikhluta. Tyrone hélt uppteknum hætti en skoraði þó einungis 7 stig í þessum leikhluta. Fleiri Blikar tóku þátt í stigaskoruninni í öðrum leikhlutanum og liðið endaði tæpum 20 stigum yfir í hálfleik, 47-29. 
 
Blikarnir mættu heldur rólegir aftur til leiks í seinni hálfleik og ÍA reyndu þá að laga stöðuna. Sigurður Rúnar, framherji Skagamanna, náði að skora nokkrar góðar körfur sem létu stóra menn Breiðabliks líta ansi illa út og Derek hitti sæmilega á körfuna (4/8 í skotum utan af velli í þessum leikhluta). Heimamenn tóku loks við sér með Tyrone fremstan í flokki. Hann skoraði 12 stig í leikhlutanum, þar af fljúgandi sóknarfrákast og sniðskot þar sem hann reif boltann úr höndunum á Jóni Orra, sem kallar ekki allt ömmu sína. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 75-51, heimamönnum í vil. 
 
Lokafjórðungurinn hófst með svo góðri boltahreyfingu hjá Breiðabliksmönnum að þeir fengu dæmda á sig 24 sekúndur (í þriðja sinn í leiknum) og allir virtust vera að rembast við að vera óeigingjarnir. Þess á milli voru þeir heldur værukærir og vörn þeirra var til skiptis múrveggur  eða gatasigti. Sókn Blika var nægilega góð til að það kæmi ekki að sök og þegar 4 mínútur voru eftir af leiknum átti aðeins einn leikmaður þeirra eftir að setja stig á töfluna. Matthías Örn, sem kom seinastur inn af bekknum í leiknum, stimplaði sig rækilega inn með því að setja 8 seinustu stig leiksins, eitt tveggja stiga skot og tveir þristar. Leiknum lauk 102-62 fyrir Breiðablik. 
 
Þrátt fyrir sannfærandi sigur fannst undirrituðum Breiðablik spila undir getu en þeir voru nægilega lánsamir að ÍA mættu til leiks undirmannaðir og spiluðu sömuleiðis undir getu. Tveir byrjunarliðsmenn Skagamanna, Fannar Helgason og Áskell Jónsson, voru fjarri góðu gamni og liðsmenn þeirra gátu ekki brúað bilið sem þeir skildu eftir sig. Maður leiksins var tvímælalaust Tyrone Garland sem átti frábæran leik; hann skoraði 38 stig, hitti 8/13 í tveggja stiga skotum (62%) og ótrúlega 7/8 í 3ja stiga skotum (88%), stal 7 boltum, tók 6 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og endaði með 45 framlagsstig í leiknum. Þó að hann var hvergi nærri þrefaldri tvennu, hvað þá fjórfaldri, þá var hann ekki nema 3 stigum frá framlagsstigametinu sínu (48 framlagsstig þegar hann náði næstum því fjórfaldri tvennu).
 
Nú er Breiðablik í 3. sæti í deildinni á eftir Hetti og Fjölni og ÍA er í næstneðsta sæti á undan Ármenningum. Breiðablik bíður nokkrir erfiðir útileikir á Egilsstöðum og á Ísafirði á meðan að ÍA mun á næstu vikum fá Fjölnismenn og Selfyssinga í heimsókn til sín, en þau lið eru í öðru og fjórða sæti í deildinni. 
 
Breiðablik: Tyrone Garland 38 stig/7 stolnir boltar/6 fráköst/3 stoðsendingar, Birkir Víðisson 14 stig/8 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Egill Vignisson 8 stig/7 fráköst, Halldór Halldórsson 8 stig, Matthías Örn Karelsson 8 stig, Leifur Steinn Arnarsson 7 stig/8 fráköst, Þröstur Kristinsson 6 stig/5 fráköst/3 stoðsendingar, Snorri Vignisson 5 stig, Ragnar Jósef Ragnarsson 3 stig, Sveinbjörn Jóhannesson 2 stig, Bjarni Geir Gunnarsson 2 stig, Atli Örn Gunnarsson 1 stig/5 fráköst. 
 
ÍA: Derek Shouse 23 stig/8 fráköst/5 stoðsendingar/4 stolnir boltar, Björn Steinar Brynjólfsson 15 stig/7 fráköst, Sigurður Rúnar Sigurðsson 13 stig, Jón Orri Kristjánsson 5 stig/6 fráköst/3 stoðsendingar, Karvel Lindberg Karvelsson 5 stig, Ómar Örn Helgason 1 stig.
 
 
 
 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson 
Mynd / Bjarni Antonsson