Grindavík sigraði Stjörnuna, 86-82, í gær í æsispennandi leik í 32 liða úrslitum Maltbikarkeppninnar. Ekki voru allir sáttir í lok leiks og eftir hann með það hvernig lokasókn Grindavíkur hafi fengið að fara fram. Sérstaklega eftir að RÚV birti myndband fyrr í dag sem sýnir það greinilega hversu mannleg mistökin voru sem gerð voru í lokin. 

 

Við heyrðum í formanni dómaranefndar KKÍ, Rúnari Birgi Gíslasyni, og spurðum hann afhverju ekkert hafi verið dæmt, sem og hvaða ráðstafanir dómarar á Íslandi taki til að koma í veg fyrir mistök:

 

"Í hverjum leik eru óhemjumörg atriði sem dómarar þurfa að fást við og krafan um að dómarar séu með þær allar réttar ekki sanngjörn. Varðandi þessar spurningar er því til að svara að stundum sjá dómarar ekki atvikin eða leggja hreinlega ekki rétt mat á þau. Hlutir geta gerst hratt og óvænt og það er þekkt hvar sem borið er niður í íþróttum, hvort sem um er að ræða litla Ísland eða stærstu lönd heims, að dómarar gera mistök eins og aðrir þátttakendur leiksins. 

 

 

Almennt vill ég segja að mér finnst mikilvægt að við nálgumst hvert annað á þann hátt að mistök séu hluti af íþróttum og að þau mistök séu heiðarleg hver sem á í hlut. Þau eru til að læra af og dómarar eins og aðrir leggja hart að sér í þeim efnum.

 

 

Dómarar kvarta ekki yfir gagnrýni eða tilfinningum þeirra sem upplifa særindi vegna dýrkeyptra mistaka enda þekkja dómarar það að eiga mjög erfiðar tilfinningar sem fylgja því að gera mistök í þessu starfi."