Valur og Snæfell mættust í 16. liða úrslitum maltbikarsins í Stykkishólmi í dag. Í leik liðanna fyrr í haust fór Snæfell með aðeins tveggja stiga sigur af hólmi eftir æsispennandi leik. Það mátti því búast við því að sama yrði upp á teningnum í dag, enda bikarleikur þar sem allt er undir.

 

Gangur leiksins

Það fór eins og búast mátti við því leikurinn var mjög spennandi frá upphafi til enda. Þó Valskonur lentu á þéttum varnarmúr Snæfells í sinni fyrstu sókn létu þær það ekki slá sig út af laginu heldur voru hænufetinu framar í flestum aðgerðum framan af leik. Þær voru þolinmóðar í sókninni og nýttu færin sín nálægt köfunni vel meðan hálfgert óðagot var á leik Snæfellsliðinu sem spilaði stuttar sóknir og reyndi margar erfiðar sendingar.

 

Snæfell leiddi með minnsta mögulega mun 40-39 í hálfleik. Í seinnihálfleik bar leikurinn þess merki að spennustigið var hátt og kappið mikið. Mikil barátta var hjá leikmönnum beggja liða sem verður oft til þess að leikskipulagið fer fyrir lítið. Boltinn fór hratt enda á milli, þristarnir urðu margir og misvel ígrundaðir. Snæfellsliðið er meistari síðustu þriggja ára  er skipað þaulvönum leikmönnum sem kunna að landa sigrum í leikjum sem þessum og það vó afar þungt. Þær lönduðu þriggja stiga sigri 79-76.

 

Tölfræðin

 

Eins og lokatölur og gangur leiksins gefur til kynna var ekki ýkja mikill munur á tölfræði liðanna. Valur var með betri tveggja stiga og víta nýtingu en Snæfell hitti betur fyrir utan þriggja stiga línuna. Aðeins munaði tveim fráköstum og þremur töpuðum boltum á liðunum. Það er því óhætt að fullyrða að það hafi ekki verið þessir þættir sem vógu hvað þyngst í sigri Snæfells í dag.

 

Hetjan

 

Besti leikmaður Snæfells var Aaryn Ellenberg-Wile. Hún skoraði 25 stig, gaf 7 stoðsendingar og þó hún sé ekki há í loftinu var hún líka með flest fráköst, 10 talsins. Pálína kom inn af bekknum hjá Snæfelli og var vítamínsprauta fyrir liðið. Hún lyfti okrustiginu upp á hærrastig eins og henna einni er lagið, hún var grimm í vörninni var liðinu mikilvæg.  Hjá Val var Mia Loyd allt í öllu með 31 stig og 21 frákast.

 

Kjarninn

 

Snæfellsliðið býr að ríkulegri innistæðu í reynslubankanum sem nýtist þeim vel í naglbítum sem þessum. Segja má að það hafi skilið á milli liðanna í dag. Valur var síður sen svo lakara liðið en þegar mest á reyndi skorti þær það sem uppá vantaði til að klára leikinn. Enginn endir virðist því á óláni þeirra. Þær tapa enn einum jöfnum leik og bikarinn út af borðinu þennan veturinn. Það var enginn meistarabragur á leik Snæfells og ljóst að liðið á enn mikið inni miðað við leikmannahópinn. Það er ljóst að Ingi og Baldur hafa enn ekki fundið réttu formúluna fyrir liðið.

 

Umfjöllun / Guðrún Gróa

Mynd / Sumarliði Ásgeirsson