Ragna Margrét Brynjarsdóttir var fúl með tap Stjörnunnar á Skallagrím í Borgarnesi í dag. Leikurinn var í níundu umferð Dominos deildar kvenna, Stjarnan hefur nú tapað tveim leikjum í röð og eru í fimmta sæti deildarinnar.

 

Karfan.is heyrði í Rögnu Margréti eftir leik og fengum viðbrögð hennar við þessum leik. 

„Við vorum að hitta illa og það tók okkur úr takti. Við höfum verið svolítið taktlausar síðustu leiki og ekki spilað okkar leik.“ sagði Ragna Margrét og bætti við: 

 

„Það sem er jákvætt við þennan leik held ég að við áttum góða spretti inn á milli og hættum aldrei.“ 

 

Stjarnan hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum eftir að hafa unnið þrjá fyrstu leiki tímabilsins.

 

„Þetta landsleikjahlé er kærkomið, við þurfum aðeins að endurstilla okkur! Ég er 100% viss að við komum sterkari til baka eftir hléið, ég hef fulla trú á mínu liði. Það býr mikið í okkur, meira en við höfum sýnt í síðustu leikjum.“

 

Mynd / Ómar Örn Ragnarsson