Ægir Þór Steinarsson og Burgos fara rólega af stað í spænsku LEB Gold deildinni sem er sú næstefsta þar í landi. Síðastliðinn föstudag lá Burgos 78-66 á útivelli gegn Gipuzkoa GB þar sem Ægir var með 8 stig og 5 fráköst fyrir Burgos. Karfan.is tók hús á Ægi sem sagði hlutverk sitt hjá Burgos umtalsvert stærra en það sem hann hefur hjá íslenska landsliðinu. Þá er stefnan hjá klúbbnum skýr, atlaga er gerð að sæti í ACB deildinni á næstu leiktíð! 

„Við byrjuðum svolítið illa í deildinni, við töpuðum tveimur fyrstu leikjunum okkar sem er fremur óvanalegt hjá þessu liði sem hefur verið mjög sigurstranglegt undanfarin ár. Pressan hér er mikil á að liðið vinni sigur í deildinni,“ sagði Ægir en liðið er núna með þrjá sigurleiki og þrjá tapleiki í 7. sæti LEB Gold deildarinnar. 

Það eiga allir að leggja sig um kl. 14 á daginn

„Ég er sáttur með hlutverkið mitt hér, spænski boltinn hentar mér afar vel og möguleikarnir til að gera vel eru margir. Ég fæ gott hlutverk og tel okkur vera á réttri leið við að slípa saman liðið. Hlutverkið er mun stærra en það sem ég hef hjá landsliðinu, spila meira og með meiri ábyrgð,“ sagði Ægir þó framlagið sé ekkert svo voðalega ólíkt að hans sögn.

„Hlutirnir eru svipaðir hér í Burgos og með landsliðinu, að leika góða vörn og setja upp en sóknarlega er meiri þungi á mér á Spáni heldur en með landsliðinu,“ sagði Ægir og gefur dvölinni ytra toppeinkunn. 

„Lífið á Spáni er ótrúlega gott, ég mæli t.d. með því fyrir alla að leggja sig á daginn um kl. 14. Ég tel það helstu ástæðuna fyrir því að Spánverjinn lifi lengur flestir, hollur og góður blundur og halda svo áfram með vinnudaginn,“ sagði Ægir léttur á manninn. En talandi um ekki svo létta hluti en það er verkefnið að komast upp í ACB deildina, sú braut er í dag þónokkrum þyrnum stráð.

„Kröfurnar um að fara upp eru skýrar hjá klúbbnum, að því stefnum við en auðvitað þarf ýmislegt að gerast til að svo megi verða. Kostnaðurinn er gríðarlegur við að öðlast sæti í ACB deildinni og Burgos hefur oft unnið en aldrei farið upp! Það er mikill kjarkur í liðinu núna að vinna og láta á þetta reyna,“ sagði Ægir og von gæti verið á útspili í þessum málum.

„Eins og staðan er núna er óljóst hvað gerist. Það var rætt í lok síðasta tímabils að leggja niður eða minnka þann kostnað sem það hefur í för með sér að komast inn í ACB deildina. Þá þarf einnig að fá sterka samstarfsaðila, eiga pening í að fá til sín sterkari leikmenn og fleira. En ef reglurnar um aðild að ACB breytast ekki þá er þetta gríðarlega erfitt. Að loknum þessum fundi í fyrra þar sem rætt var um þennan mikla kostnað og hvernig væri hægt að minnka hann var ákveðið að gera ekki breytingar en núna er þetta enn til umræðu og mögulega gæti eitthvað verið að þokast í þessu máli.“

Mikil athygli komin á íslensk íþróttafólk

Við spurðum Ægi út í hvernig honum hefði verið tekið ytra komandi með farseðil á EuroBasket.

„Já maður finnur fyrir meðbyr hjá fólki. Það vitaskuld hjálpar að vera með þátttökurétt í lokakeppni EuroBasket og mikil athygli er komin á íslenskt íþróttafólk. Spánverjar sýndu kannski víkingaklappinu í fótboltanum meiri athygli núna en þeirri staðreynd að við séum að fara í lokakeppni EuroBasket annað sinnið í röð. Ég finn samt fyrir því að fólki finnst mikils til þessa alls koma og eins það að við í Burgos gerðum vel í deildinni í fyrra og þetta allt er gaman að sjá og heyra.“

Burgos leikur heima þann 4. nóvember næstkomandi þegar Melilla í 16. sæti deildarinnar kemur í heimsókn. Eins og sakir standa eru Coruna, Forca Lleida og Gipuzkoa GB jöfn í 1. sæti deildarinnar með 5 sigra og 1 tapleik svo ljóst er að deildin er jöfn og verður væntanlega æsispennandi í vetur. 

Ljósmynd/ Bára Dröfn – Ægir með íslenska landsliðinu í Laugardalshöll en með honum á myndinni t.v. er Þórsarinn Tryggvi Snær Hlinason og t.h. Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson.