Ingunn Embla Kristínardóttir gat ekki klárað leik Stjörnunnar og Grindavíkur í gærkvöldi þar sem hún varð frá að víkja í fjórða leikhluta vegna meiðsla í hendi. Óvíst er hvort hún nái bikarleik Grindavíkur og Njarðvíkur næstkomandi sunnudag.

Ingunn handarbrotnaði í októbermánuði og sleit liðbönd í hendi en var að spila á meiðslunum. „Hendin beyglaðist í leiknum í gær og því gat ég ekki klárað leikinn. Ég veit ekki hvert framhaldið verður en það er bikarleikur á sunnudag sem væri súrt að missa af,“ sagði Ingunn í samtali við Karfan.is í dag.

Ingunn hafði enn ekki náð á lækni þegar Karfan.is ræddi við hana og því staðan á handleggnum enn óviss og óvíst með þátttöku hennar á sunnudag eins og áður greinir.