Haukar og ÍR mættust í Schenker höllinni í kvöld þar sem Kristinn Marinósson mætti á sinn gamla heimavöll eftir „fíaskó“ sumarsins. ÍR var án Matthíasar Orra Sigurðssonar sem lá heima veikur en að öðru leiti voru liðin full mönnuð.

ÍR-ingar voru hressir í byrjun leiks og skiluðu tveimur sterkum körfum og komust í 0-5. Á sama tíma voru Haukar að gefa hreinlega frá sér boltann. Haukar snéru blaðinu þó við fljótlega, náðu 8-0 kafla áður en ÍR-ingar skiluðu niður körfu og tóku svo annan 8-3 kafla strax í kjölfarið. Haukar voru með yfirhöndina lungað úr leikhlutanum og leiddu 29-15 eftir hann. Haukar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og leiddu mest með 21 stigi í honum og voru 54-35 yfir í hálfleik.

Það var alveg ljóst að Haukarnir voru hungraðir í sigur eftir fjóra tapleiki í röð og héldu áfram á sömu braut í þriðja leikhluta líkt og þeir höfðu gert í fyrri hálfleik. Munurinn fór mest upp í 30 stig og leiddu rauðir með 26 stigum eftir hann 73-47. Haukar gáfu eftir í fjórða leikhluta og það nýttu ÍR-ingar sér og minnkuðu muninn niður í 18 stig þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Áfram héldu ÍR-ingar að saxa niður forskotið en Haukar voru þá komnir djúpt á bekkinn. Sigur Hauka var þó aldrei í hættu þó bláir hafi minnkað muninn niður í 11 stig en þannig var munurinn í leikslok 93-82.

 

Þáttaskil
Þessir tveir kaflar hjá Haukum í fyrsta leikhluta gerðu það að verkum að liðið fékk blóð á tennurnar og kláruðu leikinn örugglega. Ekki bara það að sóknaleikurinn hafi smollið saman þá var vörn Hauka í fyrri hálfleik heilt yfir þétt sem skilaði liðinu mörgum auðveldum körfum á hinum endanum.

Tölfræðin lýgur ekki:
Vörn Hauka var afbragðs góð og til að mynda skoruðu þeir 28 stig eftir eftir að hafa stolið boltanum í vörninni og 29 stig samtals úr hraðaupphlaupum og í seinni bylgju.

Hetjan:
Það verður ekki tekið af Hauki Óskarssyni að hann átti loksins flottan leik og þegar það gerist þá sigra Haukar nánast undantekningalaust. Sherrod Wright virðist henta honum einkar vel á meðan Aaron Brown gerði það engan vegin. Sherrod ræðst mun meira á körfuna en forveri hans og fyrir vikið losnar um Hauk. Haukur var með 22 stig í leiknum

Kjarninn:
ÍR saknaði klárlega Matthíasar Orra enda var sókn þeirra hálf bitlaus. Það er einnig alveg ljóst að ætli ÍR sér stærri hluti en undanfarin ár þurfa þeir að skipta út erlendum leikmanni en hann er ekki að skila nægilega miklu af sér. Þeir þurfa þó að hafa hraðar hendur enda lokast glugginn eftir þriðjudaginn næsta.
Kristinn Marinósson ætlaði svo sannarlega að láta sína gömlu félaga finna fyrir sér en Haukamenn fundu lítið fyrir því þar sem hann var fljótur að koma sér í villuvandræði og þurfti að láta langar bekkjarsetur sér duga.

Tölfræðin
Myndasafn úr leik (Bára) 
 

Mynd/Bára