Nostradamus leit við hjá mér og lagði spilin á borðið. Hann sagði, „þú höfuðstóri eitt sinn ritstjóri Karfan.is“ svona verður drátturinn í dag í hinum Maltverska bikar á eyjunni Thule. Þá rökstuddi hann einnig sýnina.

Haukar b – Njarðvík b (sem aftur er komið lengra í bikarnum en Njarðvík a)
Höttur – Tindastóll (svo einhver keyri nú í gegnum Ásbyrgi að vetrarlagi)
(Aðsend athugasemd: Lesandi góður frá Varmahlíð benti greinarhöfundi á að leiðarkerfi hans væri stórlega laskað. Skagfirðingar myndu ekki, þrátt fyrir fegurð Ásbyrgis, velja þá leið. Líklegra væri að leigð yrði einkaþota eða farið í gegnum Skútustaði.)
Keflavík – Skallagrímur (MG10 heldur heim og lætur rigna)
Grindavík-Þór Akureyri (Grindavík fær annan séns á peysutogi og línudansi á heimaslóð)
FSu-KR (því það vantar mun meira Selfoss í Kaffivest strákana)
ÍR-Haukar (af því að Ghetto-Hooligans þurfa fleiri heimaleiki, bæði til að læra siðfágaða framkomu, svo er líka gaman af þeim)
Sindri-Fjölnir (Nostradamus telur kílómetrafjölda Sindra þurfa hvíld og skipar þeim í heimaleik)
Þór Þorlákshöfn-Valur (Nostradamus vill að Þór fái heimaleik svo Ragnar Matthías verði rólegur)

Svona mun þetta liggja í dag krakkar, skálin góða sem Falur Harðarson flutti heim í einhverri landsliðsferðinni hún svíkur ekki. Hún mun gefa okkur úrvalsdeildarslag og hún mun gefa okkur að b-lið eða neðrideildarlið komist í 8-liða úrslit, jafnvel undanúrslit fjandinn hafi það. Þetta er nú einu sinni bikarinn, hann er oft eins og mynd eftir Lars Von Trier.

Reyndar var Nostradamus karlinn ekkert að tvínóna við hlutina. Hann henti því fram að í fyrsta sinn í sögunni myndi Tindastóll landa bikarmeistaratitli í karlaflokki, ekkert Eggjabikardæmi heldur sjálfan bikartitilinn. Hann sá ekki lengra en þennan örlagaríka dag í febrúarmánuði, hann sagði reyndar aðra spámenn hafa farið full geyst í góðviðrisspár fyrir Skagfirðinga en sá þarna bikartitil engu að síður.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að Nostradamus heimsótti okkur ekki á Karfan.is, þetta er hugarburður undirritaðs…bara létt ágiskun á dráttardegi sökum spennu en nauðsynlegt að taka þetta fram þar sem margir æðislega sturlaðir einstaklingar lúra í netheimum að bíða eftir næstu frétt um Trump að lýsa yfir stríði gegn Íslendingum.

Góðan drátt
Áfram körfubolti

 

JB