Fimmtán manna landsliðshópur kvenna var tilkynntur nú í morgunsárið og eru miklar breytingar fra síðustu landsleikjum. Einungis átta leikmenn eru enn í hóp frá 16 manna hópnum sem lék gegn Portúgal í febrúar.

 

Fjórir nýliðar eru í hópnum og koma þrjár úr Keflavík og eru þær allar ungar og efnilegar. Einnig er Ragnheiður Benónísdóttir í hóp í fyrsta skipti.

 

Tilkynninguna frá KKÍ má sjá hér að neðan:

 

Framundan í nóvember eru tveir síðustu landsleikirnir í undankeppni EM, EuroBasket kvenna 2017, hjá kvennalandsliðinu í körfuknattleik.

 
Ívar Ásgrímsson, þjálfari, og Bjarni Magnússon, aðstoðarþjálfari, hafa valið 15 manna æfingahóp sem kemur fyrst saman þann 13. nóvember til æfinga.
 
Leikirnir í nóvember eru gegn Slóvakíu þann 19. nóvember ytra og hér heima í Laugardalshöllinni þann 23. nóvember gegn Portúgal og eins og áður segir lýkur þar með undankeppninni fyrir EM á næsta ári sem hófst í nóvember 2015 eftir nýju keppnisfyrirkomulagi FIBA.
 
Ljóst er að talsverðar breytingar eru á leikmannahópnum sem tók þátt í fyrstu fjórum leikjum keppninnar en hægt að horfa með jákvæðum augum fram á veginn. 
 
Verið er að horfa til framtíðar og fá inn unga framtíðarleikmenn í bland við reynslumeiri leikmenn að þessu sinni. Nokkrir leikmenn eru fjarverandi frá í liðinu frá sigurleiknum gegn Ungverjum að þessu sinni, þar á meðal Helena Sverrisdóttir og Margrét Kara Sturludóttir, sem eru barnshafandi.
 
Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir frá Keflavík og Ragnheiður Benónísdóttir eru nýliðar í æfingahópnum en voru 
í æfingahóp í sumar og þá lék Elín Sóley Hrafnkelsdóttir tvo leiki í sumar gegn Írlandi í vináttulandsleikjum.
 
15 manna æfingahópur Íslands er skipaður eftirtöldum leikmönnum fyrir síðustu tvo leikina í Evrópukeppninni:
 
Berglind Gunnarsdóttir – Snæfell
Birna Valgerður Benónýsdóttir – Keflavík
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir – Valur
Emelía Ósk Gunnarsdóttir – Keflavík
Gunnhildur Gunnarsdóttir – Snæfell
Hallveig Jónsdóttir – Valur
Ingibjörg Jakobsdóttir – Grindavík
Ingunn Embla Kristínardóttir – Grindavík
Pálína María Gunnlaugsdóttir – Snæfell
Ragna Margrét Brynjarsdóttir – Stjarnan
Ragnheiður Benónísdóttir – Skallagrímur 
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir – Keflavík
Sandra Lind Þrastardóttir – Horsholms 79’ers, Danmörku
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir – Skallagrímur 
Thelma Dís Ágústsdóttir – Keflavík