Þá eru fyrstu vikur NBA deildarinnar liðnar og öll lið komin á fullt, þá er ekki úr vegi að byrja vikulega kraftröðun (e. power rankings) hér á Karfan.is. Kraftröðunin fer ekki bara eftir stöðunni í deildinni heldur ýmsum öðrum þáttum, bæði tölfræðilegum þáttum og svo aðallega geðþótta undirritaðs. 

 

 

 

1.Cleveland Cavaliers (6-0)

Meistararnir halda áfram uppteknum hætti eftir titilinn í vor. 6 leikir, 6 sigrar og allir að spila vel. Kyrie Irving, Lebron James og Kevin Love eru allir með á bilinu 21-23 stig að meðaltali í leik. Sóknin búin að vera óstöðvandi og eru þeir efstir í deildinni í stigum skoruð í hverjum 100 sóknum (111,9)

 

2.Los Angeles Clippers (6-1)

Litla liðið í Englaborginni byrjar mjög vel. Varnarleikur liðsins hefur verið frábær og er bestur í NBA deildinni hingað til (90,3 stig fengin á sig í hverjum 100 sóknum). Liðið hefur slátrað síðustu leikjum sínum gegn San Antonio Spurs og Detroit Pistons, og er meðalsigur hjá Clippers unnin með 15 stigum.

 

3.San Antonio Spurs (5-2)

Eftir Frábæran sigur gegn Golden State Warriors í fyrsta leik hefur Spurs vélin hikstað örlítið, erfitt tap gegn Utah Jazz fylgdi í kjölfarið en að öðru leyti hafa Timmy-lausir Spursarar spilað vel. Kawhi Leonard hefur örlítið dalað eftir stórkostlega fyrstu leiki en ég hef ekki miklar áhyggjur af honum. Spurs eru top 10 lið í bæði vörn (100,5) og sókn (108,0).

 

4.Golden State Warriors (5-2)

Fyrir utan vondann fyrsta leik gegn San Antonio Spurs hafa Curry og félagar verið óstöðugir í leikjunum hingað til og Curry og Klay ekki verið að skjóta vel. Í nótt ákvað Curry samt að taka sig til og taka þriggja stiga metið (13 í einum leik) og eigna sér það. Áður deildi hann metinu með Kobe Bryant og Donyell Marshall (leiðinlegt að má Donyell Marshall úr sögubókunum samt, hans verður ekki minnst fyrir mikið meira). Vörnin hefur verið döpur það sem af er (104,6 – 22. sæti)

 

5.Oklahoma City Thunder (6-1)

OKC og Westbrook hraðlestin heldur áfram að heilla þó svo að hráar tölur Russel Westbrook hafi aðeins komið niður á jörðina. Hann er samt að splæsa í 30,4 stig, 9,9 stoðsendingar og 8,4 fráköst. Sóknarleikur liðsins hefur ekki verið góður en þeir hafa bætt það upp með vörninni. Næstu leikir liðsins eru erfiðir, en þeir spila heimaleiki við Los Angeles Clippers og Toronto Raptors í vikunni. Besta byrjunin í sögu liðsins kemur eftir að Durant fer, hver hefði trúað því?

 

6.Toronto Raptors (4-2)

DeMar DeRozan hefur byrjað tímabilið frábærlega og skoraði meira en 30 stig í fyrstu 5 leikjunum, eftir erfitt tap gegn Kings í síðasta leik þar sem DeRosan kom aðsin niður á jörðina (23 stig) þá ætla Raptors að stíga upp í OKC á miðvikudaginn. Bæði varnar- (99,9 – 8. sæti) og sóknarleikur (105,5 – 7. sæti) liðsins hafa verið til fyrirmyndar.

 

7.Atlanta Hawks (4-2)

Já, Atlanta Hawks hafa byrjað tímabilið sterkt og þrátt fyrir erfitt tap gegn Los Angeles Lakers hafa þeir litið virkilega vel út. Dwight Howard er að spila eins og engill og allt virðist í lukkunnar velstandi í Atlanta. Varnarleikurinn er frábær, númer 2 í deildinni (94,0) og sóknarleikurinn hefur ekki fallið eins mikið og margir gerðu ráð fyrir með komu miðherjans skapmikla. Erfiður leikur við Cleveland bíður samt handan við hornið.

 

8.Utah Jazz (5-3)

Tónlistarmennirnir frá Utah fylki hafa snúið við blaðinu eftir lélegt tap gegn Portland Trail blazers í fyrstu umferð. Menn hafa tekið sig saman í andlitinu, áttað sig á gríðarlegri breidd liðsins og ákveðið að gyrða sig í brók. Góður sigur á móti San Antonio Spurs hefur haft góð áhrif og hefur liðið unnið 4 af síðustu 5 leikjum. Jazz eiga leik við Hornets á fimmtudag.

 

9.Charlotte Hornets (5-1)

Charlotte Hornets hafa aldeilis stungið upp í mig og eru að spila vel. Kemba Walker sérstaklega en kappinn er að skora meira en 24 stig í leik sem er frábært fyrir þennan skemmtilega leikmann sem virðist bæta sig á hverju ári. Hornets liðið hefur spilað góðann varnarleik sem hefur verið alger lykill að árangrinum. Utah Jazz bíða handan við hornið en Hornets menn hafa lítið að óttast miðað við sína spilamennsku.

 

10.Los Angeles Lakers (4-3)

Los Angeles Lakers finna sig hér á topp 10 lista kraftröðunar karfan.is. Þetta reynslulitla lið er búið að vinna frábæra sigra á Golden State Warriors og Atlanta Hawks á undanfarinni viku. D‘Angelo Russell er að spila virkilega vel sem og Julius Randle sem ég mæli með að fólk fylgist með. Að auki eru þeir með Akron‘s finest, Larry Nance Jr. Í liðinu hjá sér. Leikur við strögglandi Dallas lið næst á dagskrá.

 

11.Portland Trail Blazers (4-3)

Portland liðið, fyrir utan Damian Lillard og stundum CJ McCollum er að spila algerann miðlungs-bolta, stóru mennirnir þurfa að stíga upp.

 

12.Houston Rockets (4-3)

James Harden er búinn að skila fjórum 30 stiga og 15 stoðsendinga leikjum, þeir voru 3 í allri deildinni í fyrra.

 

13.Milwaukee Bucks (4-3)

Giannis Antetokounmpo leiðir liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum. Eru að spila betur en ég bjóst við og er Jason Kidd að gera góða hluti

 

14.Detroit Pistons (4-3)

Brotthvarf Reggie Jackson er a byrja að hafa slæm áhrif á Pistons liðið sem var niðurlægt af Clippers í nótt.

 

15.Denver Nuggets (3-3)

Breiddin hjá Denver er að segja til sín, ég sé þetta ekki halda áfram þrátt fyrir það. Gallo hlýtur að meiðast fljótlega.

 

16.Chicago Bulls (4-3)

Eftir sterkja byrjun hafa Bulls snúið aftur niður á jörðina. Þeir verða í kringum 50% vinningshlutfall.

 

17.Memphis Grizzlies (3-4)

Chandler Parsons er mættur á völlinn aftur, ryðgaður sem aldrei fyrr. Bjartsýnin ríkir samt í Memphis.

 

18.Boston Celtics (3-3)

Afleitur varnarleikur Boston liðsins heldur áfram, ég býst samt ekki við þeim slöppum lengi, alltof hæfileikaríkir leikmenn í þessu liði.

 

19.Indiana Pacers (3-4)

Annað lið sem ég hef trú á að muni finna fjölina sína eftir byrjunarhikst, margir nýjir leikmenn í stórum hlutverkum.

 

20.Orlando Magic (3-4)

Eitt al-óáhugaverðasta lið deildarinnar það sem af er, samt hefur þeim tekist að vinna nokkra leiki. Ég er ekki sannfærður.

 

21.Sacramento Kings (3-5)

Sirkusinn í Sacramento er sirka á pari, Boogie Cousins er að spila vel en varnarleikur liðsins er skelfilegur. Ég sé ekki hvernig á að breyta því.

 

22.Miami Heat (2-4)

Vont tap fyrir OKC í nótt smellir fínu varnarliði Miami neðar en þeir ættu að vera. Þurfa samt að laga hjá sér sóknarleikinn.

 

23.New York Knicks (2-4)

Tilraunin í New York byrjar ekkert sérstaklega vel, Rose og Noah líta illa út, bæði í vörn (lélegastir í deildinni þar) og sókn.

 

24.Minnesota Timberwolves (1-4)

Unglingarnir í Minnesota eru að spila marga jafna leiki en gengur illa að skila sigrum, ekkert óvænt þar. KAT að byrja tímabilið frekar hægt og er ekki alveg að standa undir væntingum.

 

25.Brooklyn Nets (2-4)

Brooklyn Nets hafa verið sterkari en ég bjóst við, samt daprir. Hvenær fá menn nóg af Brook Lopez, hægasta körfuboltamanni deildarinnar?

 

26.Dallas Mavericks (1-5)

Nýju leikmennrnir eru að taka sér smá tíma að passa inn í sóknarleik Rick Carlisle, Harrison Barnes samt kominn með tvo 30 stiga leiki. Fínt það.

 

27.Phoenix Suns (2-5)

Eru búnir að vera inni í flestum leikjum til loka, en ung lið eiga erfitt með að klára jafna leiki. Devin Booker virðist samt vera tilbúinn í stóru stundirnar.

 

28.Washington Wizards (1-5)

Vonbrigðalið tímabilsins hingað til. Glataður sóknarleikur og óagaður varnarleikur hefur verið að reynast liðinu erfiður. John Wall að spila ágætlega en næstum enginn annar.

 

29.Philadelphia 76ers (0-6)

Þar til í nótt hafa Philly verið þátttakendur í öllum sínum leikjum en eru að glíma við sama vandamál og Minnesota og Phoenix, ungir leikmenn sem eiga erfitt með að klára jafna leiki.

 

30.New Orleans Pelicans (0-7)

Það gengur hvorki né rekur hjá Anthony Davis og félögum, lykilmenn meiddir og ekkert að frétta í hvorki sókn né vörn.