Þá eru 2 vikur liðnar af NBA deildinni og línur farnar að skýrast, þá er einmitt tilvalið að smella í aðra vikulega kraftröðun (e. power rankings) hér á Karfan.is. Ég minni á að kraftröðunin fer ekki bara eftir stöðunni í deildinni heldur ýmsum öðrum þáttum, bæði tölfræðilegum þáttum og svo aðallega geðþótta undirritaðs. 

Dominique Wilkins vikunnar: Minnesota Timberwolves: +7
Luc Longley vikunnar: Oklahoma City Thunder: -7
 

 

 

 1. Los Angeles Clippers (10-1) Staða síðast: 2
  Clippers áttu frábæra viku, unnu alla 4 leiki sína með sannfærandi hætti og státa enn af langbestu vörn deildarinnar sem fær einungis á sig 93 stig í hverjum 100 sóknum. Sóknin hefur svo heldur betur tekð við sér og er nú í 5ta sæti yfir bestu sóknir deildarinnar (109,1). Chris Paul og Blake Griffin hafa verið spila glimrandi körfubolta og er liðið enn að vinna leikina sína með 15 stigum að meðaltali.

   

 2. Cleveland Cavaliers (8-1) Staða síðast: 1
  Meistararnir falla niður um eitt sæti en hafa samt verið gríðarlega sterkir. Þeir töpuðu þó í erfiðum leik á mót Atlanta Hawks sem hafa sömuleiðis átt góðu gengi að fagna. Varnarleikur liðsins þyrfti þó að batna, en liðið er einungis með 28. bestu vörnina það sem af er tímabili. Næstu leikir eru gegn Raptors, Pacers og Pistons. Hafa verður þó í huga að Cleveland verður sennilega í efsta sæti austurdeildarinnar í vor og er ekki nema von að leikmenn séu ekki á 100% keyrslu.

   

 3. Golden State Warriors (8-2) Staða síðast: 4
  Warriors liðið hefur fundið fjölina sína sóknarlega og eru að skjóta andstæðinga sína í kaf. Liðið fór taplaust í gegnum vikuna og hefur litið afskaplega vel út síðan þeir töpuðu fyrir Lakers. Stephen Curry og Kevin Durant eru báðir að skora yfir 27 stig í leik með meira en 50% skotnýtingu og liðið er til alls líklegt sóknarlega. Þar eru GSW menn bestir í NBA deildinni (103.2). Klay Thompson er svo allur að koma til ásamt vörninni svo Steve Kerr þarf ekki að vera neitt sérstaklega stressaður.  Leikir gegn Raptors og Celtics í vikunni verða gott próf.

   

 4. Toronto Raptors (7-2) Staða síðast: 6
  Norðanmenn og þá sérstaklega DeMar DeRozan halda áfram að spila glimrandi körfubolta og er DeRozan að henda í 34 stig að meðaltali í leik. Varnarleikur liðsins er yfir meðallagi (11) en það er sóknin (4) sem hefur verið að vinna leiki fyrir þá. Raptors eru með nokkurn veginn sama lið og undanfarin ár og það sést vel og keyrir liðið áfram eins og mjög rútíneruð maskína. Allir leikmenn liðsins virðast hafa trú á verkefninu sem er frekar áhugavert í ljósi þess að endirinn verður sennilega með sama hætti. Tap í úrslitakeppninni fyrir Cavaliers.

 

 1. Atlanta Hawks (7-2) Staða síðast: 7
  Haukarnir úr suðurríkjunum eru að koma gríðarlega vel inn í þetta tímabil með Dwight Howard og Paul Millsap fremsta í flokki. Ég vildi geta sagt að þetta komi mér mikið á óvart en ef menn hafa hlustað á NBA podcast karfan.is þá veit fólk að ég var búinn að tala fjálglega um gæðin í þessu Atlanta liði við litlar undirtektir. Liðið er gríðarlega vel rútínerað sóknarlega (9) og er frábært varnarlið (2) sem bara söguleg byrjun Los Angeles Clippers stoppar frá því að vera það besta í deildinni. Ég býst bara við meiru af því sama frá Hawks.

 

 1. San Antonio Spurs (8-3) Staða síðast: 3
  Spörsarar halda áfram uppteknum hætti og einfaldlega vinna leiki án þess að vera með nein læti. Tölfræðin hjá besta leikmanni liðsins Kawhi Leonard hefur dalað örlítið en fyrir San Antonio skiptir það litlu, kerfið sér um sína. Spurs eru að venju topp 10 lið bæði í vörn (5) og sókn (10). Það er frekar þægileg vika framundan hjá liðinu sem mætir Sacramento, Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks í næstu 3 leikjum. Tony Parker og Danny Green eru svo báðir að stíga upp úr meiðslum sem ætti að hjálpa bæði byrjunarliðinu og bekknum til frambúðar.
 2. Charlotte Hornets (6-3) – Staða síðast: 9
  Geitungarnir frá Norður Karólínu hafa örlítið misst flugið frá síðustu viku og töpuðu 2 leikjum í vikunni. Reyndar bæði töpin fyrir frábærum liðum. Skotnýting liðsins hefur aðeins komið niður á jörðina eins og við var að búast og nýttu bæði Cleveland og Toronto sér það. Kemba Walker heldur áfram að spila eins og engill og er að splæsa í 25 stig og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Að mínu mati verður liðið að finna sér fleiri möguleika sóknarlega ef þeir ætla sér heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

 

 1. Utah Jazz (7-5) – Staða síðast: 8
  Jazz menn halda áfram uppteknum hætti í þessari viku og spila meirihluta leikja sinna á útivelli. Þeir hafa þó unnið 5 af 8 leikjum sínum sem þeir hafa spilað annars staðar en í Utah ríki. Varnarleikur liðsins er áfram sterkur (6) og það er frábært fyrir þá að Gordon Hayward er að koma af fullum krafti aftur inn í liðið. Ekki veitir af, vegna þess að sóknarleikur (12) Jazz manna getur orðið staður og hægur á köflum. Chicago, Houston og Denver eru verkefni vikunnar, en svo spila Jazz 10 af næstu 12 leikjum sínum á heimavelli. Stuðmenn sungu ,,þeir segja að heima sé best“, ætli Utah liðið sé sammála því?

 

 1. Houston Rockets (6-4) – Staða síðast: 12
  Eldflaugasérfræðingarnir eru enn að skoða varnarleikinn sinn sem er á köflum hlægilegur (22) og er stundum eins og mönnum sé alveg sama þó að andstæðingurinn sé að skora, þá sé bara tækifæri til þess að skora strax aftur sjálfir. James Harden heldur áfram að skila fáránlegum tölum með frábærri skotnýtingu og keyrir áfram fínan sóknarleik liðsins (6). Sterkur sigur gegn Spurs í vikunni telur talsvert hér og þess vegna eru Rockets menn ofar en margir aðrir. Næst á dagskrá eru leikir gegn OKC, Portland og Utah sem gætu breytt stöðunni talsvert.

 

 1. Portland Trail Blazers (7-4) – Staða síðast: 11
  Blazers standa og falla með Damien Lillard, það er bara svoleiðis. Þegar að Lillard á góðann leik og leikurinn er jafn, sem er oftar en ekki, þá eiga Portland-liðar alltaf möguleika, sama hver andstæðingurinn er. Vandamál Portland liðsins eru skelfilegur varnarleikur (27) sem hreinlega verður að batna ætli liðið sér einhverja hluti í vor. Næsta vika ætti að fara ágætlega hjá liðinu sem að mætir Chicago, Houston, NOLA og Brooklyn i næstu leikjum.

 

 1. Detroit Pistons (6-5) – Staða síðast: 14
  Hið unga lið Pistons spilaði síðasta leik án sinna 2gja bestu leikmanna, samt varð niðurstaðan sannfærandi sigur á Oklahoma City Thunder.
   
 2. Oklahoma City Thunder (6-5) – Staða síðast: 5
  Fjórir erfiðir tapleikir í röð hjá liðinu sem sýnir engar breytingar á sínum leikstíl. Westbrook or bust.
   
 3. Boston Celtics (5-5) – Staða síðast: 18
  Varnaleikur Boston manna er kannski vandræðalegur, en það er unun að horfa á Isaiah Thomas spila. 37 stig í síðasta leik.
   
 4. Los Angeles Lakers (6-5) – Staða síðast: 10
  Englaborgarbörnin hafa aðeins misst flugið og slátrunin frá ylfingunum í Minnesota var ekki falleg.
   
 5. Chicago Bulls (6-4) – Staða síðast: 16
  Körfuboltinn sem liðið býður upp á er ekki fallegur, en með svona góða leikmenn næst alltaf einhver árangur. Jimmy Butler vaknaði aðeins í vikunni.
   
 6. Milwaukee Bucks (5-4) – Staða síðast: 13
  Skemmtilegt lið Milwaukee Bucks heldur áfram að spila ágætlega, óþarfa tap fyrir New Orleans slær þá aðeins niður.
   
 7. Minnesota Timberwolves (3-6) – Staða síðast: 24
  Ylfingarnir áttu stórfurðulega viku, slátruðu Lakers daginn eftir að hafa verið slátrað af Clippers. Klassísk vandamál ungs liðs.
   
 8. Memphis Grizzlies (5-5) – Staða síðast: 17
  Vince Carter mun aldrei hætta, og er mikilvægur hlekkur í liðinu. Það kann ekki endilega góðri lukku að stýra.
   
 9. Brooklyn Nets (4-6) – Staða síðast: 25
  Fín 50% vika síðasta með 2 sigrum og 2 töpum. Nets halda áfram að koma mér verulega á óvart með fínum körfubolta þrátt fyrir skelfilegann mannskap.
   
 10. Indiana Pacers (5-6) – Staða síðast: 19
  Lið Indiana hefur valdið mér og fleirum vonbrigðum, það er alger óþarfi fyrir svona vel mannað lið að tapa fyrir Philly. Ættu jafnvel að vera neðar eftir það.
   
 11. Orlando Magic (4-7) – Staða síðast: 20
  Frábær sigur gegn OKC Thunder í hetjuleik Serge Ibaka var svo sannarlega sætur. Leikur liðsins almennt er það ekki.
   
 12. Denver Nuggets (3-7) – Staða síðast: 15
  Töpuðu öllum leikjum vikunnar, og virðast ekkert vera að flýta sér að verða góðir. Danilo Gallinari er allur að koma til sem er gott mál.
   
 13. Sacramento Kings (4-7) – Staða síðast: 21
  Sirkusinn í Sacramento heldur áfram. Sjöunda árið af úrslitakeppnislausum körfubolta í röð. Fær DeMarcus Cousins nóg?
   
 14. Miami Heat (2-7) – Staða síðast: 22
  Það eru ekki margir leikmenn með lífsmarki í þessu Heat liði, tankið er á næsta leiti.
   
 15. Washington Wizards (2-7) – Staða síðast: 28
  Góður sigur á Boston Celtics, fylgt eftir með 2 töpum. Ég er hræddur um að tímabilið verði svolítið svona hjá Wiz í vetur.
   
 16. New York Knicks (4-6) – Staða síðast: 23
  Hingað til er D-Rose tilraunin ekki að virka, en í New York eru menn vanir að berja höfðinu við steininn. Áfram gakk.
   
 17. Dallas Mavericks (2-7) – Staða síðast: 26
  Góðu fréttirnar eru að Harrison Barnes virðist vera býsna góður, slæmu fréttirnar eru þær að hann er eini leikmaður liðsins sem virðist ætla að vinna leiki.
   
 18. Phoenix Suns (3-8) – Staða síðast: 27
  Devin Booker er að skjóta vel undir 30% utan af velli, er hann jafn góður og menn halda?
   
 19. New Orleans Pelicans (2-9) – Staða síðast: 30
  Pelicans líta skelfilega út, 2 sigrar fela það ekki neitt. Anthony Davis strax byrjaður að fá bakverki við að halda liðinu á floti.
   
 20. Philadelphia 76ers (1-9) – Staða síðast: 29
  Loksins tókst Philly að vinna leik! Embiid og Sergio Rodriguez eru að spila ágætis bolta, enginn annar.