Slagurinn um Reykjavík fór fram í Hertz Hellinum í kvöld þegar ÍR tók á móti KR í Domino's deild karla. Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og leiddu með 8 stigum eftir fyrsta leikhluta en gestirnir úr Vesturbæ náðu að snúa spilinu við  þegar leið á leikinn og sigruðu að lokum nokkuð örugglega, 78-94.

Þáttaskil
Gestirnir fundu sig ekki á fjölunum í Hertz Hellinum í upphafi leiksins í kvöld, þeir töpuðu óvenju mörgum boltum í fyrri hálfleik og oft á nokkuð klaufalegan hátt. ÍR náði mest 11 stiga forystu í stöðunni 26-15 eftir þriggja stiga körfu frá Hákoni Erni Hjálmarssyni og aftur í stöðunni 30-19 eftir troðslu frá Matthew Hunter.

Um miðjan annan leikhluta hresstist leikur KR við, þeir fóru að skapa sér fleiri færi og nýta þau betur. Þórir Guðmundur jafnaði leikinn fyrir KR með þriggja stiga skoti þegar um tvær mínútur voru eftir af öðrum leikhluta en ÍR leiddi í hálfleik með tveimur stigum. KR-ingar mættu tilbúnir til leiks í þriðja leikhluta og höfðu náð 7 stiga forystu þegar skammt var liðið af honum. Þeir lögðu grunninn að sigrinum í kvöld með frábærum fjórðungi þar sem þeir héldu ÍR í einungis 12 stigum og leiddu að honum loknum með 10 stigum, 60-70.

Tölfræðin lýgur ekki
Fyrir utan að vera með betri skotnýtingu, þá vann KR frákastabaráttuna í kvöld og tóku þeir 39 fráköst á móti 22 fráköstum ÍR. KR-ingar voru mun grimmari undir körfunni eftir því sem á leið á leikinn og segir 1 sóknarfrákast KR í fyrri hálfleik á móti 11 sóknarfráköstum í seinni hálfleik sína sögu.

Hetjan
Fimm leikmenn KR sáu að mestu um stigaskor þeirra í kvöld og voru með 13 stig eða meira hver. Darri Hilmarsson var þeirra stigahæstur með 22 stig og Sigurður Þorvaldsson setti 18 stig og tók 10 fráköst.

Kjarninn
Eftir sigurinn í kvöld situr KR í 2. sæti deildarinnar með 12 stig, líkt og Stjarnan sem á leik til góða og mætir Tindastól í Ásgarði annað kvöld. ÍR féll hins vegar niður í 9.-11. sæti með 4 stig líkt og Haukar og Þór Akureyri, en Þórsarar munu leika á móti Þór Þorlákshöfn fyrir norðan á morgun. Hlutskipti liðanna því ólík og hver leikur mikilvægur í baráttunni um stig. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik