Fjórir leikir fara fram i sjöttu umferð Domino´s-deildar karla í kvöld. KR og Þór Akureyri mætast í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik síðan árið 2009 en einu sinni frá árinu 1968 hefur Þór Akureyri unnið úrvalsdeildarleik á heimavelli KR. Þess má geta að árið 2009 var Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs á Akureyri við stýrið hjá KR og stýrði liðinu þá inn í 21-1 deildarkeppni og varð liðið síðan Íslandsmeistari eftir epíska baráttu gegn Grindavík.

Hér að neðan skoðum við gengi liðanna sem mæta á heimavelli Tindastóls, Skallagríms, Grindavíkur og KR í kvöld.

Leikir kvöldsins

Tindastóll-Snæfell
Skallagrímur-Keflavík
Grindavík-Njarðvík
KR-Þór Akureyri

Tindastóll – Snæfell
Síðasti sigurleikur Snæfells í Síkinu í úrvalsdeild var 5. janúar 2012, 99-100 sigur. Síðan þá hefur liðið tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum í röð í Skagafirði. Liðin eiga að baki 20 deildarviðureignir í Skagafirði þar sem Tindastóll hefur unnið 11 leiki en Snæfell 9 og verður leikur kvöldsins 21. deildarviðureign liðanna í Síkinu.

Skallagrímur-Keflavík
Keflvíkingar hafa unnið tvo síðustu deildarleiki sína í Borgarnesi. Liðin mættust fyrst í úrvalsdeild í Borgarnesi árið 1992 þar sem Keflvíkingar komust á braut með 82-87 sigur. Alls hafa liðin mæst 21 sinni í deildarleik í Borgarnesi. Skallagrímur hefur unnið 10 leiki en Keflavík 11. Leikur kvöldsins verður 22. deildarviðureign Skallagríms og Keflavíkur í Borgarnesi.

Grindavík-Njarðvík
Grindavík og Njarðvík eiga að baki 31 úrvalsdeildarslag í deildarkeppni úti í Grindavík. Þá hafa liðin mæst nokkrum sinnum í úrslitakeppninni. Í deildarleikjunum hafa Grindvíkingar unnið 16 af þessum leikjum en Njarðvíkingar 15.

KR – Þór Akureyri
KR og Þór Akureyri mættust fyrst í úrvalsdeild á heimavelli KR árið 1968 en allt til dagsins í dag hafa liðin enn ekki mæst í úrslitakeppninni! Einu sinni hefur Þór Akureyri sloppið með sigur gegn KR út úr höfuðstaðnum en það gerðist árið 2000 þegar Þór vann 78-79 sigur. Hina 26 leikina hefur KR unnið, síðast árið 2009 þegar KR lagði Þór 108-94.