Á Hlíðarenda tóku Valskonur á móti Skallagrím í Dominos deild kvenna. Eftir jafnar upphafsmínútur náði Skallagrímur unditökunum og var munurinn snögglega orðinn yfir 10 stig.

Fátt kom í veg fyrir sigur Skallagríms eftir það en heimakonur sýndu dapra takta á varnarhelmingnum og áttu því litla möguleika gegn klóku liði Skallagríms.

Lokastaða 68-87 fyrir gestunum en með sigri fór Skallagrímur á topp deildarinnar með 10 stig ásamt Keflavík og Snæfell.

Þáttaskil:

Svæðisvörn Skallagríms gerði Val gríðarlega erfitt fyrir í fyrri hálfleik og lokaði á sóknarleik Vals þegar þær nálguðust liðið. Varnarleikur Vals var hinsvegar stærstan part leiksins langt frá því að vera boðlegur. Skallagrímur þurfti oft eingöngu eina til tvær sendingar til að splúndra vörn Vals sem virtist vera með hausinn kolvitlaust skrúfaðann á. Á meðan var skynsemin allsráðandi hjá Borgnesingum sem voru greinilega mun einbeittari í dag.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Skallagrímur komst yfir með fyrstu körfu leiksins og hélt forystunni allt til loka, Valskonur höfðu aldrei forystuna í leiknum sem segir ansi mikið. Skallagrímur er með 31 stoðsendingu í leiknum gegn 21 Vals, einnig var skotnýting gestanna mun betri. Þessir tölfræðiþættir vega þungt og erfitt að vinna ekki leiki þegar þessir þættir eru í góðu lagi.

 

Hetjan:

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir ræsti útkall á þrennuvaktinni í kvöld. Hún skellti í 18 stig, 11 fráköst og 13 stoðsendingar á 32 mínútum. Auk þess spilaði hún góða vörn og var mjög traust þegar Skallagrímsliðinu vantaði stig eða framlag.

 

Kjarninn:

Fyrsti útisigur Skallagríms er staðreynd. Eftir að hafa tapað fyrstu tveim útileikjunum og sigrað fyrstu fjóra á heimavelli tókst það hjá nýliðunum. Skallagrímur var einfaldlega mun betra liðið í dag, voru klókar sóknarlega og agaðar varnarlega. Valskonur áttu ekki meira en nokkra góða spretti en það virðist vanta nokkuð uppá samspil og stöðugleika í liðið.