Keflavík sigraði Tindastól í 5. umferð Dominos deildar karla með 101 stigi gegn 79. Eftir leikinn eru liðin því jöfn í 3.-6. sæti deildarinnar. Bæði með 3 sigra og 2 töp það sem af er móti.

 

 

Góð byrjun

Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur. Voru strax um miðjan fyrsta leikhluta komnir með 5 stiga forystu, sem þeir voru svo duglegir að byggja ofan á það sem eftir lifði hálfleiks. Leikmenn Keflavíkur, Amin Stevens og Guðmundur Jónsson fóru fyrir sínum mönnum þessar fyrstu mínútur og virtust þegar á leið, geta gert allt það sem þeim datt í hug.

 

Þriggja stiga sýning

Snemma var ljóst að Keflavík ætlaði sér að ná í nokkur stig af þriggja stiga línunni í þessum leik. Í fyrri hálfleiknum fór nánast allt sem þeir skutu niður. Það sem kannski verra var fyrir gestina úr Skagafirði var hvað þeim virtist ganga illa að koma í veg fyrir að heimamenn tækju hvert opna skotið á fætur öðru. Bara í fyrri hálfleiknum náðu 6 leikmenn Keflavíkur að setja skot úr djúpinu, þeir Magnús Már Traustason, Guðmundur Jónsson, Reggie Dupree, Andrés Kristleifsson, Andri Daníelsson og Davíð Páll Hermannsson.

 

 

Hræðilegur varnarleikur

Tindastóll spilaði skelfilega vörn í þessum leik. Alveg hreint hræðilega. Oft á tíðum var eins og þeir ættu við einhverskonar samskiptavanda að stríða, sem gaf af sér öll þessu opnu skot fyrir utan fyrir Keflavík. Inni í teig var staðan ekkert mikið betri. Leikmaður Keflavíkur, Amin Stevens, gerði nákvæmlega það sem honum sýndist á móti hinum hávaxna Mamadou Samb. Ljóst er að þetta Tindastóls lið er mörgum hæfileikum gætt, en það líður alveg svakalega fyrir dugleysi erlendra leikmanna þeirra varnarmegin. 

 

Þáttaskil

Tala mætti um tvö raunveruleg þáttaskil í þessum leik. Þau fyrri í byrjun leiks þegar að Keflavík siglir fyrst fram úr gestunum. Síðan aftur á fyrstu 85 sekúndum 4. leikhlutans. Áður en að þau seinni eiga sér stað hefur Tindastóll gert vel í að brjóta niður forystu heimamanna. Eru aðeins 6 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 73-66. Í byrjun 4. leikhlutans setur Keflavík svo aftur í sláturgírinn, kemur muninum hratt upp í 14 stig og lítur ekki aftur fyrr en dómarinn flautar leikinn af. Að lokum fór Keflavík með 22 stiga sigur af hólmi 101-79.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík var betri aðilinn í öllum tölfræðiþáttum leik kvöldsins. Við ætlum ekki að fara að telja þá upp hér. Við hinsvegar ætlum að klappa þeim á bakið fyrir það að hafa farið í gegnum heilan leik án þess að klikka á einu einasta skoti af gjafalínunni. Fóru þangað í 16 skipti og settu öll 16 niður.

 

 

Hetjan

Amin Stevens lék á alls oddi í leik kvöldsins. Var með 35 stig, 19 fráköst, 5 stoðsendingar og 2 varin skot á þeim 32 mínútum sem að hann spilaði. Án þess þó að vilja taka of mikið frá kappanum skal það aftur tekið fram hvað þessi teigur lítur illa út hjá Tindastól. Þegar að Mamadou Samb er inni á vellinum virtist allt, allstaðar á vellinum hreinlega opnast fyrir Amin og félaga hans í Keflavík. Þessari tilraun Sauðkrækinga hlýtur hreinlega að fara að ljúka. Þeir hljóta hreinlega að fara að ná sér í betri erlenda leikmenn. Því flest okkar eru enn að búast við þeim sem einu af betri liðum deildarinnar.

 

Tölfræði leiks

Myndir

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

 

Mynd / SBS