Stjörnukonur tóku á móti Keflavík í Domino’s deild kvenna í kvöld. Liðin mættust þar í annað sinn á tímabilinu en í fyrri leik liðanna höfðu Stjörnukonur unnið góðan útisigur. Síðan þá hafa Keflavíkurstúlkur spilað hreint frábærlega og eignast fjölda aðdáenda, eins og alþekkt er orðið. Það var því von á hörkuleik í Garðabæ. Svo fór þó að það voru gestirnir sem hirtu sigurinn með frábærum 57-72 sigri.

 

 

Hver var lykillinn að sigri?

Leikmenn Keflavíkur virðast einfaldlega allar vera með sín hlutverk á hreinu og þekkja hver aðra inn og út. Það sást mjög vel í kvöld en liðsvörn og sóknarleikur gestanna var til fyrirmyndar. Stjörnukonur áttu í stökustu vandræðum með mjög öfluga Keflavíkurvörn sem áreitti heimastúlkur linnulaust allan leikinn. Þó svo að fyrri hálfleikur hafi boðið upp á meiri barning heldur en áferðarfallegan körfubolta þá sýndu ungir leikmenn gestanna að þær voru meira en tilbúnar í slíkan leik og spiluðu mjög fast.

 

Hetjan

Það er ekki öfundsvert hlutverk að velja einn leikmann út úr Keflavíkurliðinu í kvöld, því eins og áður sagði er liðsheildin í liðinu til mikillar eftirbreytni. Eins klisjukennt og það kann að virðast verður því „hetju”stimpillinn að fara á allt lið gestanna.

 

Vondur dagur hjá

Sóknarleik Stjörnunnar. Keflavík spilaði mjög fasta vörn og áttu heimakonur í stökustu vandræðum með að leysa hana. Heimakonur virtust á tímabili vera mjög pirraðar yfir lánleysinu í sókn.

 

Tölfræðin

Danielle Rodriguez, leikstjórnandi Stjörnunnar var einum stolnum bolta frá því að bjóða upp á þrennu og einu vörðu skoti frá því að bjóða upp á svokallaða 5×5 línu. 21 stig, 14 fráköst, 9 stolnir boltar, 5 stoðsendingar og 4 varin skot hjá þessum frábæra leikmanni.

 

Niðurstaðan

Frábær 15 stiga sigur Keflvíkinga, sem sanna hið fornkveðna „ef þú ert nógu góður, ertu nógu gamall”. Dominique Hudson var stigahæst gestanna með 20 stig. Keflavík er því áfram á toppi Domino’s deildarinnar ásamt Snæfelli, með 12 stig. Stjörnukonur eru hins vegar með 8 stig í 4.-5. sæti deildarinnar.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Mynd / Tomasz Kolodziejski