Jóhanna Björk Sveinsdóttir átti góðan leik er lið hennar Skallagrímur hafði sigur á Stjörnunni í níundu umferð Dominos deildar kvenna í kvöld. 

 

Karfan.is náði tali á Jóhönnu eftir leik þar sem hún sagði meðal annars að stuðningsmenn Skallagríms væru með þeim bestu á landinu.

 

„Við spiluðum eins og lið og stóðum saman. Vorum jákvæðar og héldum okkar striki. Fjósið er erfiðir völlur að heimsækja. Þar spila stuðningsmennirnir stóru hlutverki en þeir eru með þeim betri á landinu. Þeir gefast aldrei upp og eru allann tímann á fullu að styðja.“ sagði Jóhanna Björk eftir leikinn. 

 

Skallagrímur er nú taplaust á heimavelli eftir fimm leiki þar en heldur Jóhanna að Fjósið sé að verða að óvinnandi vígi fyrir önnur lið?

 

„Það er frábært að spila í svona litlu samfélagi þar sem allir styðja og sýna áhuga. Það hjálpar okkur helling og gerir Fjósið erfiðara fyrir andstæðinga.“

 

Framundan er landsleikjahlé og fer næsta umferð ekki fram fyrr en 30. nóvember. Tveir leikmenn Skallagríms eru í landsliðhópnum en og því ljóst að mikið verður um æfingar næstu vikurnar. 

 

„Það var mjög mikilvægt að ná þessum sigri fyrir landsleikjapásuna en annars er fókusinn bara einn leikur í einu og þetta var einn af mörgum leikjum í vetur. Nú er bara meiri tími í undirbúning fyrir næsta leik.“