Grindavík sigraði ÍR fyrr í kvöld í Hellinum í Breiðholti með 81 stigi gegn 79.

 

Tekinn var púlsinn á mönnum eftir leik. Hinn reynslumikli kappi, Sveinbjörn Claessen var hunddrullufúll að leikslokum:

 

Sveinbjörn var á þeirri skoðun að liðið hefði átt að vinna þennan leik burtséð frá því að liðið hafi elt lungann úr leiknum:

Mér finnst að við hefðum átt að vinna þennan leik, sama hvort sem við vorum að elta eða leiða eitthvað x-hlutfall úr leiknum. Við erum með betra lið og það er óásættanlegt að tapa á þessum velli.

 

Kristinn Marínósson kom til baka í kvöld eftir meiðsli en náði ekki að sýna sitt rétta andlit. Sveinbjörn var inntur eftir því hvernig staðan væri á honum:

Hún er bara góð, hann er alvöru leikmaður sem að nýtist, hann er búinn að vera í burtu í 2-3 vikur og þarf bara að fínstilla sig aftur eftir fjarveruna.

 

Nú hefur þú verið innan raða ÍR mjög lengi og langt síðan að liðið hefur haft jafn öflugan hóp. Ertu ekki bara spenntur fyrir vetrinum, þið gætuð vel gert góða hluti í vetur þrátt fyrir tap í kvöld?

Jújú, ég geri miklar kröfur til liðsins eins og sjálfs míns og ég í rauninni ætlast til þess að við verðum öflugir í vetur og endum hátt á stigatöflunni – en ef við ætlum að gera það þá þýðir ekkert að tapa leikjum eins og þessum í kvöld. Við eigum að vinna þessa leiki og það á að gera þá kröfu til okkar. Gegn liðum eins og Grindavík sem ég tel heldur lakara en við verðum við að taka stigin. Mér fannst við ofboðslega lélegir í fyrri hálfleik og bara heilt yfir vanta einhverja stemmningu hjá okkur. Við komum frá hörku sigri úr Borgarnesi á erfiðum útivelli svo mætum við svona á heimavöll. Við bara eigum að vinna þennan leik, það er ekki flókið. Þannig að maður er bara hunddrullufúll!

 

 

Jóhann Þór, þjálfari Grindvíkinga var auðvitað öllu sáttari:

Þetta hafðist en þú ert kannski ekkert ánægður með að hleypa þeim inn í leikinn eftir að hafa leitt með hátt í 10 stigum stærstan hluta leiksins:

Jájá, við vorum ekki nógu sterkir í seinni hálfleik og ekki nægilega sterkir andlega. En við sýndum þó karakter og komum til baka og kláruðum þetta. En eins og ég segi þá hefði ég vilja sjá okkur aðeins sterkari á svellinu í seinni hálfleik.

 

Mér fannst sjást á liðinu að það sé búið að öðlast aukna trú á sér – liðið búið að fá Dag Kár til liðs við sig og allir spenntir og hressir.

Jájá, fyrri hálfleikurinn var mjög góður og við vorum flottir bæði í vörn og sókn. Menn eru auðvitað spenntir fyrir því að fá Dag til liðsins, hann er hörku spilari og kemur til með að styrkja okkur.

 

Dagur á kannski eftir að skila enn meiru til liðsins en í kvöld – þið eigið væntanlega eftir að spila ykkur betur saman og þetta lítur bara ágætlega út fyrir ykkur.

Hann á eftir að koma enn sterkari inn og styrkja okkur helling, þetta tekur auðvitað tíma, gerist ekki á einni nóttu. Við munum bara vinna vel í okkar málum.

 

Menn eru kannski bjartsýnni á framhaldið í Grindavík núna heldur en í allnokkurn tíma?

Ja, við lögðum þetta bara upp á ákveðinn hátt og tökum þetta gamla góða, leik fyrir leik. Við höfum helling að sanna, sérstaklega fyrir okkur sjálfum. Með tilkomu Dags breytir það ekki öllu fyrir okkur – auðvitað styrkir það okkur og allt það en við höldum bara okkar striki og tökum þetta skref fyrir skref.

 

 

 

Viðtöl / Kári Viðarsson

Mynd / Bára Dröfn