Níu leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. James Harden fór mikinn gegn meisturum Cavs en það dugði ekki að sinni. Sömuleiðis voru tölurnar ekkert slor hjá Anthony Davis en þær voru ekki nóg er New Orleans lá gegn Milwaukee. Utah Jazz gerðu góða ferð til San Antonio og Golden State lagði Portland.

Cleveland 128-120 Houston
Harden splæsti í 41 stig og 15 stoðsendingar hjá Houston en það dugði ekki gegn meisturunum. Hjá Cleveland var Kyrie Irving með 32 stig. Þetta var fjórði deildarsigur Cleveland í röð en Bulls, Cleveland og Atlanta eru einu taplausu liðin á austurströndinni um þessar mundir.

Philadelphia 101-102 Orlando
Nikola Vucevic var atkvæðamestur í sigri Orlando með 24 stig og 14 fráköst. Hollis Thompson kom svo með 22 stig af bekknum hjá Philadelphia og Joel Embiid landaði tvennu með 18 stig og 10 fráköst.

Indiana 115-108 LA Lakers 
Lou Williams gerði 19 stig og gaf 5 stoðsendingar komandi af bekknum hjá Lakers en Paul George var með 30 stig og 7 fráköst í sigurliði Indiana. 

Miami 108-96 Sacramento (framlengt)
Rudy Gay og DeMarcus Cousins voru báðir með 30 stig hjá Sacramento og Gay auk þess með 12 fráköst. Hjá Miami var Goran Dragic að daðra við þrennu með 25 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar.

Detroit 102-89 New York
Carmelo Anthony smellti í 24 stig hjá Knicks en Tobias Harris safnaði í tvennu með 25 stig og 10 fráköst í liði Pistons. 

New Orleans 113-117 Milwaukee
Anthony Davis slakar ekkert á skrímslatölunum sínum með 35 stig og 15 fráköst í nótt en þrátt fyrir þá frammistöðu hafði Milwaukee sigur þar sem Giannis „The Greek Freak“ hjó nærri þrennu með 24 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. 

Minnesota 116-80 Memphis
Deyonta Davis með 17 stig og 6 fráköst komandi af bekknum hjá Memphis en Zach LaVine setti niður 31 stig í sigurliði Minnesota. 

San Antonio 91-106 Utah
Sterkur útisigur hjá Jazz þar sem George Hill gerði 22 stig en Kawhi Leonard skoraði 30 stig hjá Spurs og var með 7 fráköst. 

Portland 104-127 Golden State
Þrír liðsmenn GSW með 20 stig eða meira, Curry með 28 stig og 5-10 í þristum, Durant með 20 stig og Ian Clark með 22 stig af bekknum. Hjá Portland var Damian Lillard (sem margir spá að muni eiga skrímslatímabil) með 31 stig og 2 stoðsendingar. 

Topp 20 troðslur næturinnar

Ökklabrjótar næturinnar

Harden vs Irving