Ein umferð í viðbót á laugardag og að henni lokinni er skollið á landsleikjahlé í Domino´s-deild kvenna. Eftir gærkvöldið lenti lið Grindavíkur á botni deildarinnar og einhverjum kann að þykja gengi þeirra undarlegt þessa vertíðina með jafn sterkan leikmannalista og raun ber vitni.

Eins og áður hefur komið fram hafa þjálfaraskipti átt sér stað í Grindavík, um það bil tíu þjálfarar á fimm árum og flestir hvá við þessa tölfræði. Nú hefur Bjarni Magnússon tekið aftur við liðinu en hann er einnig aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins og á leið eftir laugardaginn með liðinu erlendis í leik fyrir forkeppni EuroBasket 2017.

Ef við rennum yfir hóp Grindavíkur er ljóst að það er ekki skortur á kanónum þar á bæ. Nefni þar Ingunni Emblu, Írisi Sverris, Maríu Ben, Ingibjörgu Jakobs og Petrúnellu Skúla sem og Ashley Grimes. Sex sterkar með Jeanne Sicat, Lovísu Fals og Hrund Skúla komandi inn af bekknum. Alls 9 sterkir leikmenn og þá hafa Grindvíkingar verið að senda frá sér efnilega og góða leikmenn í kvennaflokki síðustu ár en þetta tímabilið gengur hvorki né rekur hjá kvennaliðinu.

Fyrsti og eini Íslandsmeistaratitill klúbbsins í kvennaflokki kom tímabilið 1996-1997. Eins og staðan er í dag, og með jafn vel skipaðan hóp, er liðið víðsfjarri því að bæta öðrum titli við í safnið.

Beinast liggur við að spyrja hvert meinið sé þetta tímabilið. Með engu móti á þessi leikmannahópur að verma botnsæti deildarinnar og einn Íslandsmeistaratitill í sögu félagsins rennir stoðum undir að það er engin lausn að reka í sífellu þjálfara liðsins. Spjótin hljóta nú einhverntíma að berast að leikmönnum liðsins!

Öllu á botninn hvolft eru það leikmennirnir sem ráða úrslitum leikjanna og með alla þá reynslu, landsleikjafjölda, deildarleikjafjölda og stórleikjafjölda sem leynist í herbúðum Grindavíkur er það ekki með nokkru móti gott mál að verma botnsæti deildarinnar.

Enginn íslenskur leikmaður í liðinu kemst á topp 15 lista yfir meðalstigaskor í deildinni, ekki heldur í stoðsendingum né fráköstum, Grimes er hinsvegar á topp 15 á öllum þremur áðurnefndum listum. Það er enginn eyland í þessu svo eðlilegur útgangspunktur er að áætla að ofannefndar kanónur séu að „under performa“ svo um munar.

Með Bjarna á útleið í Evrópuverkefni eftir helgina hvað getur þá raunverulega átt sér stað hjá Grindvíkingum, bæta þær ráð sitt á Skype í fjarþjálfun hjá Bjarna, heldur liðið áfram að láta reka á reiðanum eða er enn nægilega mikið „fight“ í þessum reynda og efnilega hópi til þess að snúa bökum saman, hífa sig upp af botninum og blanda sér í baráttu toppliðanna þar sem þessi sveit á heima?

Á laugardag mætast spútnik lið deildarinnar Keflavík og vonbrigði deildarinnar til þessa, Grindavík. Ákjósanlegur tími til þess að snúa við blaðinu en eins og sakir standa virðist sigur gegn Keflavík í besta falli langsóttur. Deildin er jöfn í ár, Grindavík er ekki búið að missa af neinni lest, fjarri því svo. En mikið meira af þessari frammistöðu sem sést hefur upp á síðkastið og gular verða einfaldlega eftir.

Forvitnilegt verður að sjá hvernig gular þjappa sér saman fyrir laugardaginn sem og hvernig landsleikjahléið verður nýtt í Mustad-höllinni.

nonni@karfan.is