Justin Shouse leikmaður Stjörnunar hefur verið hér á landi í hartnær 10 ár og spilað körfuknattleik með fínum árangri. Justin hefur hinsvegar ekki enn náð að verða Íslandsmeistari en útlitið í ár lítur nokkuð vel út ef dæmt er að byrjun mótsins.  Stella er hinsvegar Boston Terrier tíkin hans Justins og um helgina varð hún Íslandsmeistari í sínum flokki.  

 

Það tók sum sé hana Stellu eina helgi að áorka það sem Justin hefur verið að reyna síðasta áratuginn eða svo.  Við höfðum samband við Justin og kappinn hafði að sjálfsögðu húmor fyrir þessum pælingum okkar. "Jú jú þetta er einmitt brandarinn á heimilinu núna. Hún (tíkin) veit ekki hversu gott hún hefur það. Ég hef reyndar orðið íslandsmeistari sem þjálfari yngri flokka þannig að hún er ekki alveg ein á heimilinu. En fjandans hundurinn þarf heldur ekki að dekka Jón Arnór og Pavel til að ná þessum titli." sagði Justin og hló dátt.  Justin hefur augljóslega góðan húmor fyrir þessu öllu enda toppmaður þar á ferð. 

Hér að neðan má sjá skjáskot af stöðufærslu Justin um hana Stellu.  Við hjá Karfan óskum Stellu að sjálfsögðu innilega til hamingju með titilinn.