Grindavík sigraði Stjörnuna, 86-82, í gær í æsispennandi leik í 32 liða úrslitum Maltbikarkeppninnar. Ekki voru allir sáttir í lok leiks og eftir hann með það hvernig lokasókn Grindavíkur hafi fengið að fara fram. Sérstaklega eftir að RÚV birti myndband fyrr í dag sem sýnir það greinilega hversu mannleg mistökin voru sem gerð voru í lokin. 

 

Við heyrðum í þjálfara Stjörnunnar, Hrafni Kristjánssyni, í dag og spurðum hann aðeins út í hvað honum fyndist um málið.

 

 

Um lokaandartök leiksins hafði hann þetta að segja:

 

“Upplifunin sem slík er í raun nokkuð óljós.  Það er ansi margt sem er i gangi og lætin mikil og því lítið annað fyrir þjálfara að gera en að einbeita sér að leikkerfinu sem sett er upp og vona svo það besta.  Eins og atvikið horfði við mér leit sóknin vel út í upphafi og mér fannst Devon vera að ná að losa sig frá Óla áður en að hindrunin átti sér stað.  Það kom mér því nokkuð á óvart að Óli náði að vinna sig svona fljótt fram fyrir hann aftur og ná að slá boltann en hugsaði lítið um það, úr því sem komið var vonaði ég bara að hann næði ekki boltanum áður en hann færi út af.  Framhaldið er síðan orðið nokkuð vel þekkt hugsa ég og niðurstaðan sár.”

 

Hrafn fékk hinsvegar dæmda á sig tæknivillu eftir að leik lauk og hafði hann þetta um hana að segja:

 

“Tæknivillan var verðskulduð, ég geng út úr boxinu mínu og mótmæli kröftuglega. Skal játa að þar sem ég horfi eftir línunni og sé Óla stíga á hana verð ég svo hissa þegar flautið kom ekki að ég missi stjórnina. Það er mér til minnkunar og ég sé eftir því.”

 

Það setti Grindavík á línuna þar sem að Ólafur Ólafsson setti niður vítaskot og fór því svo að þeir unnu leikinn að lokum með 4 stigum 86-82. 

 

Að lokum hafði Hrafn þetta að segja um þá grimmd sem felst í því að vera sleginn út úr bikarkeppninni á þennan hátt:

 

“Það er alltaf sárt að vera sleginn úr bikarnum, sama á hvaða hátt það gerist. Þetta Stjörnulið á að fara lengra en þetta og við verðum að skoða vel og vandlega hvað við hefðum getað gert betur allir sem einn til að afstýra þessu. Þar liggur vinnan fyrir okkur, að nýta sárindin til að bæta okkur og leggja allt okkar í að landa þeim verðlaunum sem enn standa okkur þó til boða.

 

Mér finnst hins vegar svolítið sárt, annan útsláttarleikinn í röð, að þurfa að eiga við eftirmála af þessu tagi og að umræðan þurfi að snúast um svona lagað.  Allir þeir sem koma að leiknum hvort sem það eru leikmenn, dómarar og þjálfarar eru í þessu af heilindum og metnaði og ég myndi aldrei ætla neinum nokkuð annað.  Að sama skapi koma upp ótal atvik í gegnum heilan leik sem virka tvímælis á báða bóga og verður að líta á sem eðlilegan hluta leiksins.  Mér finnst samt ekki ósanngjarnt að ætlast til þess að atvik sem þetta sjáist og sé dæmt, á þessum tímapunkti geta hlutir sem þessir kostað ansi mikið.

 

Ekkert af þessu tekur þó frá því sem Grindvíkingar gera í leiknum.  Þeir komu tilbúnir, létu okkur hafa fyrir hverju stigi og hittu risaskotum undir lokin.  Langar að óska þeim til hamingju og góðs gengis í næstu umferð keppninar, það vantaði ekkert Malt í þá í gærkvöldi.”