Stóridómur er fallinn í máli Stefáns Karels Torfasonar en nú er svo búið að fjögur þung höfuðhögg hafa bundið enda á körfuboltaferil þessa öfluga Akureyrings. Stefán sem samdi við ÍR í sumar lék fyrsta leik tímabilsins gegn Snæfell þar sem hann hlaut þung höfuðhögg og hefur glímt við miklar afleiðingar þess undanfarið. 

„Það er svakalegur dagamunur á mér núna, ég er enn með höfuðverk og slappleika en þetta fer vonandi að koma núna eitthvað á næstunni. Eftir þetta síðasta högg hefur komið betur og betur í ljóst að ég þurfi að hætta í körfubolta,“ sagði Stefán Karel áðan við Karfan.is. 

„Ég hef rætt við alla, lækna, sjúkraþjálfara og fjölskylduna og við erum sammála um að þetta eru nokkur öflug höfuðhögg sem gera það að verkum að maður fer að horfa til þess að það er annað mikilvægara í lífinu en körfubolti. Það er alls ekki verið að neyða mig út úr íþróttinni en það er sterklega mælt með því að ég hætti og ákvörðunin er ofboðslega erfið,“ sagði Stefán en samtals eru höfuðhöggin orðin fjögur talsins. 

„Það hefur gengið mun hægar núna að glíma við þetta högg heldur en fyrstu þrjú skiptin, heilahristingarnir eru orðnir því fjórir og mál að komið sé gott. Eins og staðan er núna er ákvörðunin nokkuð endanleg, maður á aldrei að segja aldrei en staðan í dag er bara svona.“

Stefnir á hliðarlínuna

Stefán Karel lætur jafnan mikið að sér kveða þar sem hann kemur og hann ætlar sér að styðja sína menn í ÍR áfram þó ekki verði það inni á parketinu.

„Við vorum komnir með hörku mannskap og leiðinlegt að geta ekki tekið tímabilið með ÍR og hjálpað til við að vinna inn sæti í úrslitakeppninni. Ég stefni samt að því að vera með þeim á hliðarlínunni þegar fram líða stundir þó maður fíli nú hliðarlínuna ekkert allt of mikið…þá styður maður nú samt sína menn!“

Aðspurður um framhaldið þá sagði Stefán það aðalmarkmiðið að koma höfðinu á sér í gott lag. „Ég er í raun ekki farinn að líta neitt annað, ég er í nuddnámi og ætla mér að klára það og svo sjáum við bara hvað setur þegar því er lokið. Annars hef ég ekki hugmynd um hvað maður eigi að gera núna við allan þennan frítíma. Mig hefur reyndar alltaf langað til að læra að dansa, enda einstaklega mjúkur í hreyfingum.“

Leikmannaferill Stefáns Karels