Háskólaboltinn í Bandaríkjunum er kominn á fullt. Kristófer Acox og Jón Axel Guðmundsson voru á ferðinni í nótt með Furman og Davidson og máttu fella sig við tapleiki. Þá hafa Lovísa og Kristinn verið á fullu með Marist, Gunnar Ólafs með St. Francis og okkar fólk er að láta til sín taka um gjörvalla Ameríku. Hér að neðan er samantekt frá leikjum liðanna upp á síðkastið.

Furman 78-84 Georgia
Kristófer Acox var stigahæstur í liði Furman í nótt, hann gerði 17 stig á 30 mínútum en Georgia átti lokasprettinn og fagnaði sigri. Kristófer var einnig með 4 fráköst og einn stolinn bolta. Leikurinn var ekki partur af SoCon-riðlakeppninni en Furman hefur þegar klárað einn leik þar sem var öruggur 101-72 sigur gegn Bob Jones skólanum. Næsti leikur er núna á laugardag 19. nóvember gegn Trinity Baptist skólanum og fer hann fram á heimavelli Furman í Greenville. 

Davidson 78-95 Clemson
Jón Axel Guðmundsson var í byrjunarliði Davidson sem í nótt tapaði sínum öðrum leik í röð á undirbúningstímabili sínu. Jón Axel komst vel frá sínu með 11 stig, 7 fráköst, 1 stolinn bolta og eina stoðsendingu á 34 mínútum. Dagskráin er þétt hjá Davidson þessi dægrin en liðið spilar aftur í kvöld gegn Missouri en leikirnir fara fram í Orlando. Fyrsti leikur Davidson í Atlantic 10 riðlinum er svo ekki fyrr en 31. desember af öllum dögum þegar liðið mætir Richmond skólanum.

Marist 72-76 Vermont
Aðfararnótt síðasta fimmtudags máttu Kristinn Pálsson og félagar í Marist sætta sig við nauman ósigur gegn Vermont skólanum. Kristinn Pálsson kom inn af bekknum og skilaði 16 mínútum í leiknum, honum tókst ekki að skora að þessu sinni en var með 2 stoðsendingar.

Marist 63-76 Seton Hall
Lovísa Björt Henningsdóttir og liðsfélagar í kvennaliði Marist töpuðu sínum þriðja leik í röð aðfararnótt miðvikudags þegar Seton Hall kom í heimsókn. Lovísa var í byrjunarliðinu og gerði 8 stig á 25 mínútum og var auk þess með 6 fráköst, 4 stoðsendingar, tvö varin skot og einn stolinn bolta. 

St. Francis Brooklyn 32-72 Virginia
Gunnar Ólafsson og félagar í St. Francis Brooklyn fengu skell þann 15. nóvember síðastliðinn þegar liðið mætti Virginia háskólanum. Gunnar var í byrjunarliði St. Francis og gerði 7 af 32 stigum liðsins í leiknum. Gunnar lék í 25 mínútur og var einnig með 4 fráköst, 1 stoðsendingu og 1 stolinn bolta. St. Francis hefur tapað tveimur fyrstu leikjunum sínum til þessa en næsti leikur liðsins er 21. nóvember þegar liðið mætir Providence háskólanum á útivelli.

Belmont Abbey 94-84 Tusculum
Annar sigur hjá Belmont og Gunnari Inga í röð. Gunnar Ingi Harðarson kom af bekknum í þessum leik sem fram fór þann 16. nóvember síðastliðinn. Gunnar gerði 15 stig á 16 mínútum og var auk þess með 1 frákast og 1 stoðsendingu. Næsti leikur liðsins er gegn bræðraskólanum Catawba á laugardag en sá skóli hýsti bræðurna Finn og Helga Magnússyni. Belmont Abbey leikur í Conference Carolinas riðlinum sem er í 2. deild háskólaboltans.

St. Bonaventure 57-74 Canisius
Margrét Rósa Hálfdanardóttir var í byrjunarliði Canisius og gerði 14 stig í leiknum á 33 mínútum en hún var einnig með 2 stoðsendingar, 1 frákast og 1 stolinn bolta. Sara Rún Hinriksdóttir kom af bekknum með 12 stig á 24 mínútum en hún var einnig með 4 fráköst og 2 stoðsendingar. Canisius hefur leikið þrjá leiki það sem af er tímabili, unnið tvo en tapað einum. Næsti leikur er 20. nóvember gegn Akron á heimavelli og fyrsti leikur Canisius í riðlakeppninni er 2. desember heima gegn Rider háskólanum.

Barry 94-68 Lynn
Elvar Már Friðriksson landaði laglegri tvennu í 2. deild háskólaboltans þann 16. nóvember síðastliðinn þegar hann gerði 10 stig og gaf 12 stoðsendingar í öruggum sigri Barry á Lynn skólanum. Byrjunarliðsmaðurinn Elvar var einnig með 5 fráköst á þeim 29 mínútum sem hann spilaði. Næsti leikur Barry er núna á aðfararnótt sunnudag þegar Barry leikur á útivelli gegn Florida Tech.

Claflin 71-73 Francis Marion
Fyrsti sigur tímabilsins hjá Tómasi Þórði Hilmarssyni og félögum í Francis Marion háskólanum. Fyrstu tveir leikir tímabilsins voru tapleikir gegn Catawba og Lenoir-Rhyne. Tómas var ekki á leikmannalista Francis Marion í síðasta leik en kom engu að síður stuttlega við sögu svo nokkuð ljóst er að einhverjar misfærslur í úrvinnslu leiksins hafa átt sér stað. Leikinn þar á undan gegn Lenoir-Rhyne kom Tómas af bekknum og tók 2 fráköst á 9 mínútum. 

Mynd/ Furman – Kristófer Acox skýjum ofar.